Nýi Tækniskólinn verði samgöngubót

Fyrirhugaður byggingarreitur nýs Tækniskóla sést hér á miðri mynd af …
Fyrirhugaður byggingarreitur nýs Tækniskóla sést hér á miðri mynd af Flensborgarhöfn. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Verkefni eins og þetta er að mínu mati eitt stærsta samgönguverkefni og samgöngubót sem við hér, Hafnfirðingar, íbúar í Garðabæ og Kópavogi geta fengið,“ segir Ágúst Bjarni Garðarsson um nýjan Tækniskóla sem mun rísa í Hafnarfirði.

Fyrirhuguð bygging verður 30.000 fermetrar og rúmar um 3.000 nemendur.

Hann segir nauðsynlegt að umferð akandi verði stýrt betur. Henni sé mikið til beint til Reykjavíkur á morgnana og til baka í önnur bæjarfélög höfuðborgarsvæðisins seinni parts dags.

Öll bæjarstjórnin eigi þakkir fyrir

Ágúst er þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar á árunum 2018-2022, þegar verkefnið hófst.

„Það er ánægjulegt að sjá þetta raungerast nú eftir að hafa leitt starfshóp um þetta verkefni. Ég held að öll bæjarstjórnin eigi auðvitað þakkir fyrir, bæði fyrrverandi og núverandi.

Það er auðvitað bara mjög gleðilegt að þetta verkefni sé núna að raungerast, að við séum að sjá bygginguna rísa hér í Hafnarfirði á næstu árum,“ segir Ágúst.

Ágúst Bjarni Garðarsson segir að bygging nýs Tækniskóla í Flensborgarhöfn …
Ágúst Bjarni Garðarsson segir að bygging nýs Tækniskóla í Flensborgarhöfn sé mikil samgöngubót. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stór dagur fyrir Hafnarfjörð

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tekur í sama streng og segir að umferðin sé öll í ranga átt á morgnana.

Þetta muni aðeins hjálpa til við að ýta umferðinni í öfuga átt, á meðan allir hinir flýti sér í áttina að miðbænum.

„Þessi dagur er augljóslega mjög stór fyrir Tækniskólann en ég vil líka segja þetta er stór dagur fyrir Hafnarfjörð, að fá þessa mikilvægu skólastofnun hingað í sveitarfélagið, það er stórt mál fyrir bæjarfélagið og ánægjulegt að sjá það gerast,“ segir Bjarni.

Bjarni Benediktsson undirritar samkomulag vegna byggingu nýs húsnæðis Tækniskólans, í …
Bjarni Benediktsson undirritar samkomulag vegna byggingu nýs húsnæðis Tækniskólans, í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert