Reglubundnar ristilskimanir hefjast í ár

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar. Ljósmynd/Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Stefnt er á að reglubundnar ristilskimanir hefjist í lok árs. Undirbúningsferli við innleiðingu er í góðum farvegi, að sögn Sigríðar Dóru Magnúsdóttur, forstjóra Heilsugæslunnar. 

Ristilkrabbamein er önnur algengasta dánarorsök allra krabbameina, á eftir lungnakrabbameini. Hérlendis greinast hátt í 200 manns með sjúkdóminn á ári hverju. 

Skimanirnar verða innleiddar í áföngum, á tvo vegu. Gerð verður ristilskimun hjá fólki sem er orðið fimmtugt en hjá aldurshópnum 60-69 ára verður leitað að blóði í hægðum. En ávallt verður framkvæmd speglun ef eitthvað óeðlilegt greinist í sýni.

Sigríður segir að reglubundnar ristilskimanir verði vel kynntar þegar að þeim kemur.

Heilsugæslan sér um allt utanumhald með innköllunum í reglubundnar legháls- og brjóstaskimanir og mun einnig koma til með að gera það fyrir ristilskimanir.

Í ársskýrslu embættis landlæknis, sem kom út nýverið, er að finna upplýsingar um málefni sem heyra undir rekstur og ábyrgð embættisins. Stiklað er á helstu atriðum um framvindu, þróun og árangur í flokkum eins og eftirlit með heilbrigðisþjónustu, lýðheilsu og heilbrigðisupplýsingum. Undir það síðastnefnda falla skimanir á Íslandi.

Embætti landlæknis ber ábyrgð á endurgerð skimunarskrár og utanumhaldi upplýsinga í tölvukerfum vegna skimana. Má þar nefna legháls- og brjóstaskimanir en einnig ristilskimanir.

Fjallað var um þróun reglubundinna ristilskimana í frétt á mbl.is snemma árs 2023 en þá var áætlað að ristilskimanir yrðu að veruleika síðar sama ár en það gekk ekki eftir.

Ekkert óvænt tafði innleiðingu reglubundinna ristilskimana

Aðspurð segir Sigríður ekkert óvænt hafa komið upp á í tengslum við innleiðingu reglubundinna ristilskimana hérlendis. Hins vegar sé ferlið svo umfangsmikið að það hafi tekið lengri tíma en áætlað var.

„Allt þarf að tala saman. Tölvukerfið þarf að vera tilbúið. Það er verið að hanna skimunarskrá. Það þarf að vera mannskapur í að sinna öllum þessum skimunum.”

Reynt sé að fyrirbyggja að hnökrar verði á.

Að sögn Sigríðar heldur verkefnastjóri utan um stóran faghóp sem vinnur að innleiðingunni og að tekið sé mið af því hvernig reglubundnar skimanir eru framkvæmdar í öðrum löndum.

Þá er talin næg ástæða til að hefja reglubundnar skimanir fyrir ristilkrabbameini. Ekki er farið út í reglubundnar skimanir fyrir sjúkdómnum nema talinn sé ávinningur af þeim. Forstig getur verið greint snemma líkt og í legháls- og brjóstaskimunum.

Viðmið embættis landlæknis um mætingarhlutfall kvenna í legháls- og brjóstaskimanir …
Viðmið embættis landlæknis um mætingarhlutfall kvenna í legháls- og brjóstaskimanir er 75%. Morgunblaðið/Heiðar Kristjánsson

Reglubundnar legháls- og brjóstaskimanir

Öllum konum á aldrinum 40-74 ára með ríkisfang á Íslandi er boðið í brjóstaskimun. Sama gildir um leghálsskimun, en þar er konum á aldrinum 23-64 ára boðið í skimun.

Embætti landlæknis er með viðmið um 75% mætingarhlutfall kvenna í bæði legháls- og brjóstaskimanir. Þegar tölfræðin fyrir þessar tvær skimanir aftur til ársins 2010 er skoðuð á síðu embætti landlæknis má sjá að þeim viðmiðum er ekki náð flest árin.

Mætingarhlutfallið er aðeins betra í leghálsskimunum. Hins vegar er hlutfallið lægst í yngsta aldurshópnum 23-24 ára, sá aldurshópur mætir síst í leghálsskimun og hlutfallið hefur farið lækkandi frá árinu 2015.

Í báðum skimunum lækkar mætingarhlutfallið töluvert þegar konur með erlent ríkisfang eru teknar inn í tölurnar. En mæting þess hóps er aðeins um 20-30% í leghálsskimunum og tæplega 20-25% í brjóstaskimunum.

Sigríður segir að reynt sé að nálgast konur á mismunandi vegu, til að mynda eru boð send á mismunandi tungumálum.

Skimanirnar eru niðurgreiddar og ristilskimunin verður það einnig. Þegar hefur heilbrigðisráðuneytinu verið bent á að kostnaður við brjóstaskimanir virðist oft hindrun hvort konur svari kallinu eða ekki.

Að lokum segir Sigríður að einhver stéttarfélög taki þátt í kostnaði og sé það á ábyrgð hvers og eins að kynna sér það. Heilsugæslan bjóði þessa þjónustu, en getur ekki tekið ábyrgð á því hvort fullorðið fólk mæti í skimun eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert