Segja alvarlegs misskilnings gæta í orðum ráðherra

Róbert Spanó lögmaður, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra og Óttar …
Róbert Spanó lögmaður, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra og Óttar Pálsson lögmaður. Samsett mynd

Óttar Pálsson hæstaréttarlögmaður og Róbert Spanó, lögmaður, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu og lagaprófessor, segja alvarlegs misskilnings gæta í orðum Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur utanríkisráðherra í grein sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um uppgjör á skuldabréfum ÍL-sjóðsins.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Óttars og Róberts sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þeir hafa verið lífeyrissjóðunum, sem eru aðaleigendur ÍL-sjóðsins, til ráðgjafar og ritað álitsgerðir um málið.

Í greininni kemur fram að íslenska ríkið beri ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs og breyti engu í því sambandi þótt ábyrgð ríkisins sé einföld eins og Þórdís Kolbrún ritar í grein sinni. Form ábyrgðarinnar að þessu leyti hafi ekki áhrif á umfang hennar.

Orkar tvímælis að beita lagasetningarvaldi

Þeir segja það orka tvímælis að lagasetningarvald skuli beitt til að styrkja samningsstöðu ríkisins í viðræðum um fjárhagslegt uppgjör ÍL-sjóðsins. Ráðherrann dragi ekki fjöður yfir að með frumvarpinu um slit ógjaldfærra opinberra aðila sé ríkinu búinn valkostur í samningaviðræðum við kröfuhafa.

Í greininni kemur fram það sé skýrt af skrifum ráðherrans að hann telji Alþingi beinlínis skylt að bregðast við fjárhagsvanda ÍL-sjóðsins með ráðstöfunum sem myndi spara ríkissjóð og almenningi í landinu verulega fjármuni. Þess sé hins vegar ógetið að verðmætarýrnun skuldabréfanna sem leiddi af slitum sjóðsins næmi sömu fjárhæð.

„Með öðrum orðum: sparnaður ríkisins myndi endurspegla tap skuldabréfaeigenda, sem eru að langsamlega stærstum hluta lífeyrissjóðir og á endanum sjóðfélagar þeirra, þ.e. fólkið í landinu. Því væru það lífeyrissjóðir sem tækju á sig tapið af boðuðum ráðstöfunum ríkisins með tilheyrandi áhrifum á burði þeirra til lífeyrisgreiðslna til almennings í framtíðinni,” rita þeir.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert