Fargjöld í strætó hækka

Ný gjaldskrá hjá Strætó tekur gildi þann 1. júlí næstkomandi.
Ný gjaldskrá hjá Strætó tekur gildi þann 1. júlí næstkomandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Ný gjaldskrá hjá Strætó tekur gildi þann 1. júlí næstkomandi. Nemur hækkunin 3,2% á stökum fargjöldum og 3,85% á tímabilskortum. Verð á Klapp-plastkortum helst þó óbreytt eða 1.000 kr.

Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að ákvörðun um gjaldskrá Strætó sé tekin af stjórn félagsins.

„Ástæðan fyrir hækkun á gjaldskrá er meðal annars til að mæta almennum kostnaðarverðshækkunum hjá Strætó sem og hærri launakostnaði en einnig til að draga úr þörf á frekari hagræðingu í leiðarkerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningunni.

Gjaldskrárbreyting hjá Vegagerðinni á landsbyggðinni

Samhliða gjaldskrárhækkun Strætó hefur Vegagerðin ákveðið að hækka einnig verð fyrir stök fargjöld í Strætó á landsbyggðinni.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að hækkunin nemi 5,3% og fer stakt fargjald úr 570 kr. í 600 kr. Verð á tímabilskortum mun haldast óbreytt. Sem dæmi fer ferð frá Reykjavík til Akureyrar úr 12.540 kr. í 13.200 kr. og ferð frá Reykjavík til Keflavíkur úr 2.280 kr. í 2.400 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert