Ekkert bólar á nýjum meirihluta

Magnús S. Magnússon sprengdi meirihlutann í byrjun mánaðar.
Magnús S. Magnússon sprengdi meirihlutann í byrjun mánaðar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

24 dagar eru liðnir síðan að meirihlutasamstarfið í Suðurnesjabæ sprakk en ekkert bólar á nýjum meirihluta.

„Við erum búin að vera reyna ýmislegt og ekkert gengið upp fram að þessu. Svo sem er ekki öll nótt úti enn,“ segir Sigursveinn Bjarni Jónsson, oddviti Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is. 

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mynduðu sam­an meiri­hluta í Suður­nesja­bæ en þann 6. júní gekk Magnús S. Magnússon, kjörinn bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna og óháðra, úr meirihlutanum.

Þar með eru flokkarnir aðeins með stuðning fjögurra bæjarfulltrúa af níu.

Óformlegar þreifingar

Sigursveinn segir að óformlegar þreifingar hafi verið á milli flokka en vildi ekki fara nánar út í það um hvaða flokka væri að ræða.

„En það er allavega mikill vilji hjá okkur að reyna láta þetta ganga upp og búa til starfhæfan meirihluta,“ segir Sigursveinn. 

Hann bendir þó á að staðan sé flókin. 

Í Suðurnesjabæ eru níu bæjarfulltrúar og fjórir listar. Allir listarnir eru nú með tvo bæjarfulltrúa eftir að Magnús [óháður] gekk úr meirihlutanum. 

Vill helst sjá eitthvað gerast í næstu viku

Hvenær þarf nýr meirihluti að liggja fyrir?

„Hlutirnir ganga alveg vel fyrir sig þrátt fyrir allt - þannig séð - þangað til að bæjarstjórn kemur saman aftur fyrir september. En mér finnst nú að það þyrfti eitthvað að fara gerast í næstu viku helst því að fólk er að fara í sumarfrí og vill hafa þessa hluti á hreinu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert