Íslendingar feimnari við að greina frá hættum

Erla Sigurðardóttir beinir í ritgerð sinni sjónum að hálendishluta norðursvæðis …
Erla Sigurðardóttir beinir í ritgerð sinni sjónum að hálendishluta norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og þeim ferðamönnum sem leggja leið sína um það á eigin vegum og fyrir eigin vélarafl Ljósmynd/Hrund Óskarsdóttir

Færst hefur í vöxt að ferðamenn fari á eigin vegum gangandi og hjólandi um hálendi Íslands. Slíkar ferðir eru afar krefjandi og ekki á færi hvers sem er að takast þær á hendur.

Hér á landi virðist vera meiri feimni til að segja frá hættum í umhverfinu og setja upp stýringar á umferð en í samanburðarlöndum. Þá hafa stjórnvöld litla stjórn á því að koma upplýsingum til ferðamanna þar sem opinberir upplýsingavefir komi illa fram við leitir á vefnum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ritgerð Erlu Sigurðardóttur, starfsmanns hjá Ferðamálastofu, en hún hlaut fyrir skömmu, verðlaun félags stjórnmálafræðinga fyrir MPA-ritgerð sína í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.

Þar sem hún fjallar um þetta efni. Ritgerð hennar ber titilinn „Fólk á rétt á að fara sér að voða: Aðgerðir stjórnvalda í þágu öryggis ferðamanna sem fara á eigin vegum gangandi og hjólandi um hálendi Íslands." Finna má ritgerðina á skemman.is.

Þessi athyglisverði titill ritgerðarinnar er sóttur í ummæli landvarðar sem féllu eitt sinn í viðtali í fjölmiðlum en merking þeirra fangar viðfangsefni ritgerðarinnar vel að mati höfundar.
Rannsókn Erlu er afmörkuð og beinist að hálendishluta norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og þeim erlendu ferðamönnum sem kjósa að ferðast um svæðið á eigin vegum gangandi eða hjólandi á tímabilinu maí til október.

Blaðamaður ræddi við Erlu til að fræðast meira um efni og niðurstöður rannsóknar hennar.

„Það sem stendur upp úr þegar verið er að horfa á niðurstöður í samhengi við samanburðarlöndin þá virðumst við vera ívið feimnari við að greina frá því sem er ógnandi eða getur valdið hættum í umhverfinu í stað þess að koma bara til dyranna eins og við erum klædd og greina frá því að sum svæði geti verið hættuleg í vissum aðstæðum," segir Erla. Þá séu stjórnvöld hikandi í að setja á nokkrar stýringar enda séu þær mjög flóknar.

Hún segir að það sem kristallast í þessu öllu saman sé að við þyrftum miklu meira samtal á milli þeirra sem eru að markaðssetja og þeirra sem eru á vettvangi. „Við gætum gert svo mikið betur með samtali og aukinni þekkingu þeirra sem starfa í opinberri markaðssetningu, í ferðamálafræðunum, og þekkingu á því hvað það er sem knýr hópinn af stað,“ segir Erla.

Í Vatnajökulsþjóðgarði.
Í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ferðamenn finni ekki réttar upplýsingar á netinu

Erla segir það slæmt hversu litla stjórn við höfum á því hvaða upplýsingar fólk fær, sem hefur hugsað sér að fara í göngu- eða hjólaferðir um hálendið. Þannig sé svo mikið af upplýsingum sem við gætum komið mun betur á framfæri og það sé áhyggjuefni að vefir eins og Visit Iceland og Safe Travel séu ekki að koma upp þegar fólk er að leita, því fólk setur ekki inn þannig leitarorð heldur leitar það af afþreyingunni sem það er að fara í.

í þessum tilfellum „through hiking“ eða „traversing“ og þá fær fólk ekki þær síður upp sem eru með opinberu upplýsingunum sem myndi breyta svo miklu. Hún bendir á að þessir vefir séu með mikið af býsna góðum upplýsingum þó þá megi alltaf bæta.

Við séum að standa okkur vel í því að koma upplýsingum á framfæri inn á síðurnar en gallinn sé sá að fólk er ekki að finna síðurnar og það sé svolítið alvarlegt. „Þannig að þá er það aftur þetta samtal að þeir sem eru að setja efni og síður upp viti hvaða orð þeir eigi að setja inn til að fá leitarvélina til að virka sem best í þessu samhengi,“ segir hún.

Bent á rútuferðir sem eru ekki lengur til staðar

Erla segir ýmislegt hafa komið sér á óvart í þessu, t.d. hvað breyting á þjónustu hafi mikil áhrif á hvernig fólk þarf að undirbúa sig og hvað það breyti miklu fyrir öryggi fólks sem ætlar að fara á hálendi Íslands. Sem dæmi sé ekki lengur áætlunarrúta yfir Sprengisand, en á mörgum síðum sem fólk kemur inn á þegar það fer að leita að t.d. bakpokaferðum um Ísland séu þær rútuferðir nefndar.

Segir hún að á sumum síðum sé fólki ráðlagt að hafa samband við BSÍ og fá þar upplýsingar um rútu sem fer yfir hálendið og að þeir geti samið um að rútan skilji eftir matarpakka þar sem þeir óska, en þetta segir Erla að sé ekki lengur til staðar.

„Við erum heldur ekki að veita þá þjónustu sem fólk er mögulega tilbúið að borga fyrir. Þetta er fólk sem hefur efni á slíkum ferðum, örugglega meira en margir ímynda sér. Það sem birtist okkur þarna er fólk með bakpoka og tjald en þeir hafa efni á því að vera í lengra fríi en flestir aðrir því svona ferðir taka tíma,“ segir Erla.

Ferðalög hjólaferðalanga verða sífellt algengari um hálendið og í mörgum …
Ferðalög hjólaferðalanga verða sífellt algengari um hálendið og í mörgum tilfellum ofmeta ferðalangarnir eigin reynslu og vanmeta aðstæður. Í fyrra héldu þessir hressu þremenningar yfir hálendið, en lentu í nokkrum erfiðum dögum þar sem hitastigið var lágt og rigningin mikil. Þeir settu síðar inn myndband á Youtube um ferðalagið og mátti þar greinilega sjá að þeir voru illa undir íslenska veðráttu og náttúruöfl búnir, þótt þeim hafi tekist að klára ferðina á hörkunni. mbl.is/Þorsteinn

Ferðamenn vanmeta aðstæður og ofmeta eigin getu

Hún segir að það sem gerir umræðuna um „þverun Íslands“, þ.e. gönguleiðir á hálendinu einkum frá norðri til suðurs, sérstaklega hættulega er að á landakortinu sé þetta svo sakleysislegt. Leiðin sé ekki svo löng á kortinu í samhengi við aðrar slíkar göngu- og hjólaferðir á hálendi og hún liggur til þess að gera ekki svo hátt yfir sjávarmáli í samanburði við margar aðrar leiðir.

Það sé hins vegar blekkjandi því það er lítið sem ekkert skjól á þessari leið og þetta sé í raun bara eyðimörk. Svo sé fólk í úthafsloftslagi þarna en ekki meginlandsloftslagi. Það sé því svo margt öðruvísi við þetta sem blekkir fólk í sambandi við þessar ferðir inn á hálendið.

Hálendið öðruvísi en Alparnir

Samkvæmt því sem fram kom hjá viðmælendum Erlu sem starfa á vettvangi þá er það gegnumgangandi að ferðamenn séu ekki nægilega vel upplýstir um hætturnar. Nokkrir þeirra tóku það sérstaklega fram að erfiðast sé að fást við þá sem eru vanir að ganga t.d. í Ölpunum eða annars staðar í Mið-Evrópu. Þeir segi að þeir séu svo reyndir því þeir hafi gengið svo langt og segjast alveg vita hvað það er að ganga á fjalllendi. Ferðamenn sem hafa gengið um hálendi í Mið-Evrópu hafi aftur á móti engar forsendur til að setja það í merkingarbært samhengi að það geti gert alvöru aftaka veður á hálendi Íslands. Það er því vanmat á aðstæðum og ofmat á eigin getu sem komi þarna skýrt fram, að sögn Erlu.

Hún benti á að öryggi þessa fólks sé svo mikilvægt vegna þess að ef eitthvað ber út af og það þarf að bjarga fólki eða koma því til aðstoðar þá getur það stefnt svo mörgum öðrum í voða.

Öfug áhrif viðvarana

Eitt af því sem Erla nefnir í ritgerð sinni er að stundum hafi upplýsingar til ferðamanna öfug áhrif á þá. Hún segir að það komi fram einkum á tvo vegu. Eitt er að þeir túlki þær sem rosalega ögrandi eins og einn viðmælandi hennar orðaði það: „Ef ég set þetta fram þá hugsar kannski ferðamaðurinn að hann sé töffari og geti þetta.“ Þetta sé því mjög vandrötuð lína, að koma upplýsingum á framfæri og að pakka þeim líka þannig inn að fólk nái að setja þær í samhengi og nái að tengja við þær, en sjái þetta ekki bara sem einhverja spennandi ögrun. Upplýsingarnar eiga ekki að hafa þau áhrif að þurfa að sanna það fyrir sjálfum sér að maður sé töffari.

„Svo er það líka hitt að ef við erum að koma of miklum upplýsingum á framfæri eða frekar á rangan hátt, þá getum við gefið þá ímynd að við í fyrsta lagi höfum mjög góða stjórn á svæðinu og mikla vitneskju um hvað það býður uppá og þá upplifi menn sig öruggari. Í öðru lagi getum við líka gefið þá mynd að þetta sé „mainstream“, þ.e. fyrir almenning, en í raun er þetta bara fyrir þá sem eru „ultra“, eða þá sem eru í mjög góðu andlegu og líkamlegu formi.“ Þetta sé því vandmeðfarið. Það þarf að gefa upplýsingar mjög vandlega og það þarf líka að gæta þess að birta ekki bara myndir af hálendinu í sól og sumri.

Í gestabókum í fjallaskálum á vegum Ferðafélags Akureyrar segist Erla hafa séð skrif frá fólki sem hefur snúið við og er miður sín vegna þess að það hefur lent í brjáluðum sandstormi eða stórhríð eða slagviðri. Auk þess sé annað sem fólk áttar sig ekki á og það er vatnsleysið á svæðinu. Það sé víða ekkert vatn að fá á þessu svæði og fólk viti ekki af því. Eins sé með fjarskiptin. Fólk veit ekki hvernig þau eru eða hvar á að leita eftir upplýsingum um þau. Það er til fjarskiptakort yfir Ísland en það sé ekki svo aðgengilegt, segir hún.

Gönguferðir á hálendinu geta verið afar krefjandi fyrir gangandi og …
Gönguferðir á hálendinu geta verið afar krefjandi fyrir gangandi og hjólandi ferðamenn og veður geta verið válynd þar mbl.is/Sigurður Bogi

Hvað fær fólk til að ganga á fjöll?

Erlu fannst mjög gaman að rýna ofan í þau fræði hvað dregur fólk í svona ögrandi ferðir. Hún telur vera ástæðu til að gefa því gaum ekki síst vegna þess að það er ekkert sem bendir til annars en að þessar ferðir muni þróast í að verða vinsælli heldur en hitt. Það er ekkert sem bendir til að þetta sé bóla. Hún sér það á því að það fjölgar frásögnum fólks sem er að fara í slíkar ferðir.

Þess vegna segir hún að þekking á því hvað knýr fólk til að fara í svona ferðir sé svo mikilvæg þegar við erum að koma upplýsingum á framfæri. Ferðamenn séu oft að vinna sig út úr einhverju áfalli. Það sé aðallega tvennt sem hvetji fólk af stað. Annars vegar sé það sem kallast „life-changing events“ eða atburður sem hefur umbreytt lífi fólks, og hins vegar „lack of life changing events“ eða hreinlega leiði. Margir halda að ef þeir sigrist á einhverju svona þá séu þeir að sigrast á sjálfum sér og að það muni umbreyta þeim.

Vanfjármögnun upplýsingavefja

Annað mjög umhugsunarvert að mati Erlu er að í Safe Travel kerfinu geta ferðamenn skráð inn ferðaáætlanir sínar en þar liggja allar ferðaáætlanir sem hafa verið skráðar inn frá upphafi. Hún segir að það sé ekki til fjármagn til að taka þær út. „Það væri hægt að draga út úr þessum gögnum alveg gífurlega mikið af upplýsingum, þannig að það væri hægt að kanna miklu betur ferðaáætlanirnar sem hafa verið skráðar. Þær eru þarna. Þeim hefur ekki verið eytt samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk.“

Stjórnvöld styrkja verkefnið en fjármagnið er ekki nægt til þess að menn geti notað upplýsingarnar sem liggja í kerfinu til þess að styrkja enn þá betur framsetningu, vita hvar eru vinsælustu leiðirnar og þess háttar. Erla telur að það sé margt sem hægt sé að fá út úr þessum upplýsingum, og einnig til að aðstoða björgunarmenn við að skipuleggja sig ef kemur til vanda.

Landsbjörg en ekki stjórnvöld sem dregur vagninn

Erla segir það athyglisvert að ekkert af þeim verkefnum sem eru í gangi núna til að styðja við öryggi fólks sem er að fara gangandi um hálendi Íslands á eigin vegum sé að frumkvæði stjórnvalda heldur er það Slysavarnarfélagið Landsbjörg sem hefur sett verkefnin í gang. Stjórnvöld geri þau að sínu með því að skrifa undir samninga og styðja, en að frumkvæðið er hjá þeim sem þekkja þetta vandamál, þeirra sem lenda í útköllum, segir hún.

Hún vill taka fram að upplýsingar sem liggja í kerfum Landsbjargar séu mjög áhugaverðar einnig fyrir þá sem hafa áhuga á að rannsaka ferðamennsku á Íslandi, ferðaþjónustuna og ferðamál almennt. 

Erla segir Slysavarnarfélagið Landsbjörg í raun draga vagninn þegar komið …
Erla segir Slysavarnarfélagið Landsbjörg í raun draga vagninn þegar komið að verkefnum sem styðji við öryggi ferðamanna sem ganga um hálendið. Félagið hefur meðal annars séð um Safetravel verkefnið og er með hálendisvakt á vissum stöðum á hálendinu yfir sumartímann. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meira samtal þarf að koma til

Niðurstaðan segir Erla vera þá að það þarf miklu meira samtal að koma til á milli markaðssetningarinnar á vegum opinberra aðila, þeirra sem eru á vettvangi og svo fræðimanna. „Við þurfum að ná þessu samtali saman,“ segir hún og er bjartsýn á að það takist.

„Það blasir við að það er hægt að gera svo mikið fyrir til þess að gera lítið. Það þarf ekki svo mikið fjármagn til þess að bæta upplýsingar mjög mikið.“ Það væri þannig hægt að gera mjög mikið jafnvel bara með breyttu verklagi eða uppfæra síður svo upplýsingar sjáist betur, segir Erla að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert