Með ógnandi tilburði í Hafnarfirði

Skráð voru 107 mál hjá lögreglunni á milli klukkan 17:00-05:00.
Skráð voru 107 mál hjá lögreglunni á milli klukkan 17:00-05:00. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um einstakling í annarlegu ástandi sem var með ógnandi tilburði í Hafnarfirði. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð til vistunar vegna brots á lögreglusamþykkt fyrir Hafnafjörð og vegna ástands síns.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Skráð voru 107 mál á milli klukkan 17:00-05:00.

Lögreglu barst einnig tilkynning um líkamsárás í hverfi 104. Tveir voru handteknir í tengslum við málið og fluttir á lögreglustöð. Þeir voru þó frjálsir ferða sinna að skýrslutöku lokinni.

Nokkrir þjófnaðir

Í hverfi 106 var tilkynnt um þjófnað. Meintur gerandi sást á öryggismyndavélum á vettvangi og hafði lögregla upp á honum síðar um kvöldið.

Í Breiðholti var tilkynnt um þjófnað í verslun. Málið var afgreit með vettvangsskýrslu. Sömuleiðis barst lögreglu tilkynning um innbrot í verslun í miðbænum. Einn var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangaklefa.

Í miðbænum var einnig tilkynnt um innbrot í heimahús. Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu.

Ökumenn stöðvaðir

Ökumaður var stöðvaður af lögreglu í hverfi 108 fyrir að aka á 120 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaðurinn reyndist einnig án gildra ökuréttinda. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu.

Einnig var ökumaður stöðvaður við almennt umferðareftirlit í Kópavogi. Hann var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og vegna vörslu fíkniefna. Ökumaðurinn reyndist einnig sviptur ökuréttindum. Bifreiðin var ótryggð og voru skráningarmerki bifreiðarinnar fjarlægð á vettvangi. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð og var laus að blóðsýnatöku lokinni.

Þá var annar ökumaður stöðvaður við almennt umferðareftirlit í miðbænum. Lögregla veitti farþega í bifreiðinni athygli þar sem hann var ekki í öryggisbelti. Vettvangsskýrsla var rituð varðandi brot á öryggisbúnaði og á farþeginn von á sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert