Óttast að lúsmýið lifni við

Kýr á Brúsastöðum spókar sig í blíðunni.
Kýr á Brúsastöðum spókar sig í blíðunni. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er nú ekki mikið fyrir að drekka vatn en ég er búinn að drekka mikið af því í dag,“ segir bóndinn á Brúsastöðum þar sem hiti mældist yfir 25 gráðum fyrr í dag. Hann segist heldur betur hafa fundið fyrir hitanum eftir að loftkælingin í traktornum gaf sig og óttast að lúsmý fari á stjá í góðviðrinu.

„Þetta er bara rjómablíða,“ segir Skafti Vignisson, bóndi á Brúsastöðum í Vatnsdal, spurður út í veðrið á bænum. Þar hefur verið glampandi sól og logn í allan dag en samkvæmt vef Veðurstofunnar mældust þar 25.2 gráður þegar hæst lét.

„Það er steik, það er bara eitt orð yfir þetta. Það er búið að vera logn í eiginlega allan dag en það er að byrja að blása úr vestan núna, og það er komið ský fyrir sólu þannig þetta er svona að verða bærilegra, segir Skafti.

Skafti Vignisson ásamt Lísu Ingu Hälterlein konu sinni og börnum …
Skafti Vignisson ásamt Lísu Ingu Hälterlein konu sinni og börnum þeirra.

 „Krakkarnir flúðu úr traktornum“

Hann hefur nýtt daginn í heyskap en vöxtur hefur farið hægt af stað þetta árið vegna mikils kulda. Skafti segir góðvirðið hjálpa mikið í þeim efnum.

„Það er búið að vera gott veður bæði í dag og í gær og svo vonast maður til að fá rigninguna í kvöld og þá gerist hellingur í gróðrinum hjá okkur.“

Strik kom þó í reikninginn í heyskapnum í dag þegar loftkæling í traktornum sprakk.

„Krakkarnir flúðu úr traktornum. Það var orðið allt of heitt,“ segir Skafti.

 „Ætli lúsmýið fari ekki á stjá núna

Þá segir Skafti að þrátt fyrir hægan vöxt á túnum hafi bærinn ekki farið eins illa út úr vonskuveðrinu sem gekk yfir landið í byrjun mánaðar og margir aðrir.

„Við erum heppin að vera ekki með neitt sauðfé, heldur bara kýr og hross. Við misstum reyndar eitt folald, örugglega út af veðrinu. Ég held að merin hafi bara gelst upp og mjólkaði ekki. En förum ekkert illa. Allar okkar skepnur eru inni að undanskildum hrossunum en við fórum ekkert illa,“ segir Skafti.

Ætla má að rjómablíðan sé ágætis tilbreyting við óveðrið en Skafti segir blíðuna ekki bara hafa góð tíðindi í för með sér: „Ætli lúsmýið fari ekki á stjá núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert