Segir áhyggjur íbúa byggðar á misskilningi

Dóra Björt segir áhyggjur íbúa byggðar á misskilningi
Dóra Björt segir áhyggjur íbúa byggðar á misskilningi Samsett mynd/Sigurður Bogi

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir áhyggjur íbúa í Grafarvogshverfis um að byggja eigi háreista íbúðarbyggð á grænum reitum í hjarta hverfisins, vera byggðar á misskilningi.

Engu hafi verið slegið föstu um hæð eða stærð íbúðarhúsanna, sem enn séu í aðeins í fyrsta skipulagsfasa. 

„Það er misskilningur að búið sé að festa það í sessi að þarna eigi að rísa einhver fimm hæða byggð. Þarna eru aðeins forsendur fyrir um 65 til 96 íbúðum, sem myndu taka mið af núverandi byggðarmynnstri,“ segir Dóra Björt og bætir við:

„Ekkert hefur enn verið ákveðið um fjölda íbúða og við viljum að þetta verði eitthvað sem passi inn í og styrki umhverfið og leggjum áherslu á að uppbyggingin verðið í takt við ásynd hverfisins“.

Telur þéttinguna ekki stríða gegn stefnu borgarinnar

Spurð hvort að þétting á grænum svæðum, stríði ekki gegn lýðheilsustefnu borgarinnar segir Dóra Björt svo ekki vera. Þvert á móti sé vel hægt að koma nýrri byggð þar fyrir og samtímis bæta grænu svæðin.

„Það er augljóst að það skiptir fólk máli að þarna verði áfram græn svæði og því viljum við nálgast alla hugasanlega uppbyggingu þar með auðmýkt að leiðarljósi. Þannig munum við reyna að styrkja græn svæði með uppbygginunni,“

Dóra Björt segist þar að auki mjög ánægð með að íbúar vilji koma sínum skoðunum á framfæri og að borgaryfirvöld muni sannarlega reyna að mæta kröfum íbúa.

„Verkefnið er einmitt á þeim stað að við höfum verið að kalla eftir ábendingum og frá íbúum. Við viljum hlusta og vinna þetta í samlyndi við alla íbúa á svæðinu. Því erum við ánægð með að fólk láti sig þetta varða og munum leggja mikið á okkur við að finna niðurstöðu sem allir geta unað,“ segir Dóra Björt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert