Sigmundur svarar dómsmálaráðherra

Sigmundur hefur svarað Guðrúnu á facebook.
Sigmundur hefur svarað Guðrúnu á facebook. Samsett mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur birt færslu á facebook þar sem hann svarar fullyrðingu dómsmálaráðherra, um að útlendingalög hafi verið samþykkt í hans forsætisráðherratíð. 

„Ég ætla að minna á það að þegar að þessi útlendingalög voru sett árið 2016 þá var nú Sigmundur Davíð forsætisráðherra,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í hlaðvarpinu Ein pæling, sem Þórarinn Hjartarson stýrir.

Sigmundur Davíð var ekki forsætisráðherra þegar frumvarpinu um útlendinga var útbýtt á Alþingi í apríl 2016. Í sjálfri atkvæðagreiðslunni tveimur mánuðum seinna var hann fjarverandi. 

„Þeim er líklega bara ekki viðbjargandi,“ byrjar færsla Sigmundar á facebook.

„Í fyrsta lagi er þetta einfaldlega rangt. Ég var ekki forsætisráðherra þegar hin alræmdu útlendingalög voru kynnt, þegar þau voru samþykkt á þingi eða þegar þau tóku gildi.“

Leiðrétt rangfærsluna reglulega

Frumvarpið um útlendinga sem um ræðir var útbýtt 18. apríl 2016 eftir að Sigmundur Davíð var hættur sem forsætisráðherra og var frumvarpið samþykkt í júní 2016.

„Í getuleysi við að taka á áhrifum útlendingalaganna hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins dreift þeirri sögu sem dómsmálaráðherrann ber nú á borð,“ skrifar Sigmundur í færslu á facebook.

Hann kveðst hafa leiðrétt þessa rangfærslu reglulega.

„Fullkomlega galin hugmynd“

Hann segir að þáverandi innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins hafa tilkynnt honum að hann hygðist ráðast í setningu nýrra útlendingalöggjafar og skipað nefnd undir forystu stjórnarandstöðunnar.

„Ég vissi það fyrir að fylgjast þyrfti vel með þeim framsóknar- og sjálfstæðismönnum sem kæmu að slíku máli, þ.e. að þeir létu ekki afvegaleiða sig, en það að fela stjórnarandstöðu þess tíma að leiða slíkt mál var fullkomlega galin hugmynd.

Þetta fór ég ítrekað yfir með ráðherranum sem fyrir vikið bað mig að vera ekki vondur við sig, þetta yrði allt í lagi. Að lokum sagði ég:

„Ef þetta verður eins og ég held að það verði þá verð ég ekki aðeins andsnúinn málinu, það kemur ekki einu sinni á dagskrá ríkisstjórnarfundar“,“ skrifar Sigmundur.

Áður tekist á um málið á opinberum vettvangi

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur og sjálfstæðismenn takast á um þetta mál á opinberum vettvangi en Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði á Twitter í mars á þessu ári:

„Í pontu Alþingis var Sigmundur Davíð að atast enn og aftur út í upplegg útlendingalaganna sem sett voru árið 2016. Einhverjum finnst kannski áhugavert að vita að þegar það upplegg var ákveðið og unnið var Sigmundur Davíð reyndar forsætisráðherra.“

Þá svaraði Sigmundur henni með kjarnyrtri söguskýringu í takt við í facebook-færslu hans áðan. Hildur sagði samt Sigmund ekki geta firrt sig alfarið ábyrgð á útlendingalögunum 2016.

„Ég fullyrti ekkert um þína afstöðu kæri Sigmundur - en forsætisráðherra og verkstjóri ríkisstjórnar varstu nú samt þegar uppleggið var ákveðið og unnið eftir allt frá 2014. Það væri drengilegra að viðurkenna eigin ábyrgð í því í staðinn fyrir að benda alltaf á alla aðra imo[í. Að mínu mati].“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert