Vilja að hlustað sé á kröfur íbúa

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna samráðsskort borgaryfirvalda í Grafarvogi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna samráðsskort borgaryfirvalda í Grafarvogi. Samsett mynd/Sigurður Bogi

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon og Hildur Björnsdóttir, segja ótækt að ráðast eigi í umfangsmiklar framkvæmdir í Grafavogi án samráðs við íbúa.

Mikill styr hefur staðið meðal íbúa Grafarvogs um áform borgaryfirvalda að byggja háreist fjölbýlishús með allt að 96 íbúðum á grænum blettum í hverfinu. Hópur íbúa tók sig því til á dögunum og hóf undirskirftasöfnun til að mótmæla uppbyggingunni. 

Vill ekki að gengið sé á græn svæði

Kjartan og Hildur sitja bæði í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar.

Í samtali við mbl.is segir Kjartan mikilvægt að ekki sé gengið á græn svæði sem mörg hver séu ein helsta ástæða þess að fólk velji sér hverfið til búsetu. Því sé ljóst að margir þeir þéttingarreitir, sem borgarstjóri hefur kynnt í hverfinu, gangi gegn þessum sjónarmiðum og koma því ekki til greina.

Hlynnt þéttingu byggðar

Hildur segist vera hlynnt því að byggð sé þétt í úthverfum borgarinnar en skilyrði þess sé að tekið sé tillit til þeirrar byggðar sem fyrir sé.

„Ég get mjög vel sett mig í spor íbúa í hverfinu. Ef ég byggi í hverfi með lágreistri byggð þar sem kæmu tíðindi án nokkurs samráðs um að skyndilega ætti að reisa margra hæða hús á grænum bletti þá væri ég allt annað en sátt,“ segir Hildur og bætir við:

„Við höfum lengi talað fyrir því að byggð sé þétt í úthverfum, en núverandi meirihluti hefur lagt ofuráherslu á þéttingu í rótgrónum hverfum sem þola ekki við aukinni byggð. Hinsvegar þarf að passa að ný byggð sé í eðlilegu samhengi við þá byggð sem fyrr er. Þannig er ekki eðlilegt að háhýsi séu reist í lágreistu hverfi án samráðs við íbúa,“ segir Hildur.

Þá segir Hildur að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að fara fram á það að hlustað verði á íbúa.

„Við í Sjálfstæðisflokknum ætlum að ýta eftir því að hlustað verði á raddir íbúa í hverfinu. Manni virðist sem íbúar fari oft í undirskriftasafnanir gegn áformum borgaryfirvalda, og því miður er sjaldnast á þær hlustað, hjá meirihluta sem stæri sig mjög á góðu samráði við íbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert