Engar áhyggjur af því að tilraunamalbiki blæði

Tilraunamalbik hefur verið lagt á hluta Reykjanessbrautarinnar. Mynd úr safni.
Tilraunamalbik hefur verið lagt á hluta Reykjanessbrautarinnar. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Malbikunarstöðin Colas hefur engar áhyggjur af því að bikblæðingar myndist á Reykjanesbrautinni vegna tilraunamalbiks sem lagt var á brautina í síðustu viku. Bikblæðingar verða alla jafna í vegaklæðningum, en ekki malbiki.

Vegagerðin og Colas lögðu á föstudag út tilraunamalbik á Reykjanesbraut. Þrjár mismunandi tegundir malbiks voru lagðar út, ein með venjulegu malbiki, ein með lífbindiefni sem er aukaafurð úr pappírsvinnslu og ein með lífbindiefni úr grænmetisolíum.

„Þetta eru úrgagnsefni sem við erum að nota sem eru kolefnisneikvæð sem gerir það að verkum að við getum minnkað kolefnissporið á bikinu um allt að 85%,“ segir Björk Úlfarsdóttir, deildarstjóri umhverfis, gæða og nýsköpunar hjá Colas, sem stýrir verkefninu.

Stórt stökk

Malbik af þessu tagi hefur verið prófað víða í Evrópu, að sögn Bjarkar, einkum í Frakklandi og Danmörku. Þá hefur það einnig verið prófað á göngustíg í Skarðshlíðahverfinu í Hafnarfirði.

Er það ekki smá stökk að fara af göngu stíg yfir á Reykjanesbraut, sem er einn fjölfarnasti vegur landsins?

„Jú, þetta er alveg klárlega stökk en tilgangurinn með þessu er að prófa þetta undir mikilli áraun. Mögulega í framtíðinni munum við ekki geta haft þetta mjúka bik sem við notum. Þá þurfum við að vita hvað við erum með í höndunum,“ segir hún og heldur áfram:

„Við höfum engar áhyggjur af blæðingum, af því að það gerist alla jafna ekki í malbiki nema það sé nýútlagt.“

Vilja sjá sem mesta áraun

Björk segir stóran misskilning ríkja um það hvernig bikblæðingar verða – þær verði almennt í vegklæðningu en ekki malbiki.

Hún útskýrir að klæðningin sé blanda af biki og lífolíu sem er síðan úðað á vegin. Malbik þurfi aftur á móti að hita upp í malbikunarstöð.

„Þetta eru mjög ólík efni,“ segir hún. „Svo við höfum engar áhyggjur af þessu á Reykjanesbrautinni.“

Fylgst verði með hemlunarviðnámi og þá verður einnig fylgst með því hvort hjólför myndist hraðar í nýja í malbikinu en í samanburðarefninu.

„Við vildum setja þetta á Reykjanesbrautina til að fá eins mikla áraun og verður á malbikinu hjá okkur á Íslandi. Og ef þetta höndlar það þá höndlar þetta allt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert