Mikill straumur til Ísafjarðar

Mynd úr safni frá Ísafjarðarhöfn.
Mynd úr safni frá Ísafjarðarhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Vænta má mikils straums ferðamanna með skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar í sumar. Í þessari viku munu þúsundir ferðamanna streyma til bæjarins, flestir þeirra áttu að koma þann 4. júlí, eða um níu þúsund. Þetta segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri Ísafjarðarhafnar, í samtali við Morgunblaðið.

„Við vorum hræddir við einn dag, 4. júlí. Þá var áætlað að 9.000 farþegar kæmu hingað, en ræst hefur úr því,“ segir Hilmar og bætir við að sum skip hafi getað fært sig á aðra daga. „Þá varð þetta vel viðráðanlegt, fækkaði um 4.000 farþega,“ bætir hann við.

„Kaffærir“ ekki bæinn

Búið er að gefa út stefnu í bænum varðandi fjöldatakmarkanir farþega skemmtiferðaskipa. „Við miðum við í okkar verklagsreglum núna að það fari ekki yfir 7.000 farþega á dag,“ segir Hilmar.

Í sumar hafa hingað til verið mest um 5.000 farþegar á dag og segir Hilmar þann fjölda ekki „kaffæra“ bæinn. Samvinna er milli hafnarinnar og ferðaþjónustuaðila þegar kemur að því hversu margir ferðamenn geta komið með skemmtiferðaskipum á hverjum degi. „Þá reynir maður að taka mið af því,“ bætir hann við.

Hilmar segir mikið álag á þeim fyrirtækjum sem þjónusta ferðamenn þegar fjöldi þeirra á dag nemur yfir 7.000. „Það er hvorki gaman fyrir farþegana eða bæjarbúa að hér væru kannski 3.000 manns sem kæmust ekki í ferðir og hefðu því ekkert að gera,“ bætir hann við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert