Ofurpar með 1.100 í samanlögðu

Alexander Örn Kárason og Kristrún Ingunn Sveinsdóttir kepptu á sínu …
Alexander Örn Kárason og Kristrún Ingunn Sveinsdóttir kepptu á sínu fyrsta heimsmeistaramóti saman í júní sem um leið var hennar fyrsta heimsmeistaramót en hans þriðja. Ljósmynd/Aðsend

„Við kynntumst í kraftlyftingum og erum búin að vera saman í tæplega tvö og hálft ár,“ segir Kristrún Ingunn Sveinsdóttir, læknanemi og kraftlyftingakona, í samtali við mbl.is en hún er tiltölulega nýsnúin heim af heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Litáen þar sem hún var heldur betur í góðum félagsskap og er þar ekki aðeins átt við aðra fíleflda og stálþyrsta íslenska keppendur eins og gengur og gerist á slíkum mótum.

Kærasti Kristrúnar, lífeindafræðingurinn og kraftlyftingamaðurinn Alexander Örn Kárason, keppti nefnilega einnig á mótinu og er þetta fyrsta heimsmeistaramótið sem þau skötuhjúin sækja og keppa á saman.

„Við vinnum þetta mikið til saman sem par,“ heldur Kristrún áfram frásögn sinni af pari sem hugsanlega er sterkasta par Íslands í samanlögðu, enda summa árangurs þeirra á þeim vettvangi ein 1.100 kílógrömm. „Alexander hjálpar til við að þjálfa mig, við vinnum mitt prógramm saman og ég fæ að pota inn í og hafa skoðanir á hans. Við förum saman á öll mót sem við getum en þetta var okkar fyrsta heimsmeistaramót saman,“ segir hún.

Höfuð og herðar yfir allt

Upphaflega hófst vinskapur þeirra á Norðurlandamóti unglinga töluvert löngu áður en ástin kviknaði. „Eftir að ég skipti um lið verðum við svo betri vinir og endar með að við byrjum saman,“ rifjar læknaneminn upp, en þau Alexander æfa bæði undir merkjum Breiðabliks.

Við skiptum yfir í kærastann sem kveður það hina skemmtilegustu upplifun að fara með makanum á heimsmeistaramót þar sem bæði láta sverfa til stáls.

Á Reykjavíkurleikunum. Það er eitthvað ljóðrænt við par sem keppir …
Á Reykjavíkurleikunum. Það er eitthvað ljóðrænt við par sem keppir saman í kraftlyftingum og vinnur landi og þjóð gagn í heilbrigðiskerfinu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er ótrúlega gaman. Fólk sem maður fer með út er auðvitað ekki manns nánasti æfingahópur heldur keppendur af öllu landinu,“ segir Alexander sem sjálfur er Skagamaður að uppruna þótt fluttur sé á mölina fyrir alllöngu. „Að hafa nánasta einstaklinginn í lífi sínu með sér á mót ber höfuð og herðar yfir allt annað,“ játar hann fúslega.

Blaðamaður freistast til að forvitnast örlítið um gang mála í Litáen hjá parinu. Hefjum leika á Skagamanninum.

„Ég var með ákveðnar væntingar til þessa móts, var að koma undan Evrópumótinu í Króatíu í mars og skildi smávegis eftir þar. Vonaðist þar með til að geta tekið aðeins meira út í Litáen en það gekk ekki alveg að óskum, voru nokkrir utanaðkomandi þættir sem spiluðu þar inn í,“ útskýrir Alexander sem var ekki alls kostar sáttur við að fá aðeins fimm lyftur gildar af níu á mótinu.

Sló eina Íslandsmetið sem hann átti ekki

Hann hafnaði í 19. sæti í fjölmennasta karlaflokknum, -93 kg, þar sem 35 keppendur reyndu með sér þetta árið. „Að lenda kringum miðsvæðið í þessum þyngdarflokki er bara mjög gott og maður verður bara að minna sig á hve langt maður er kominn í þessu sporti í staðinn fyrir að vera með einhverjar neikvæðar hugsanir,“ segir Alexander sem setti Íslandsmet í bekkpressu á mótinu.

„Til mín mun leikurinn gerður og skal ég að vísu …
„Til mín mun leikurinn gerður og skal ég að vísu út ganga,“ sagði Guðrún í þjóðsögunni um djáknann á Myrká. Kristrún gengur hér hnarreist á svið, tilbúin í hörð átökin við kalt stálið. Ljósmynd/Aðsend

„Ég tók þar 197,5 kíló og sló þar með eina Íslandsmetið í þessum þyngdarflokki sem ég átti ekki, Íslandsmet sem hafði staðið frá 2014 svo ég var mjög ánægður að taka það með heim,“ segir kraftlyftingamaðurinn og lífeindafræðingurinn sem lauk keppni með 755 kílógrömm í samanlögðu, 25 kg undir hans besta árangri.

„Ég keppti -52 kílóa flokki kvenna og við vorum 22,“ segir Kristrún sem tekur við af manni sínum í frásögninni af heimsmeistaramótinu í landi sem eitt sinn tilheyrði Pólsk-litáíska samveldinu, einu helsta stórveldi Evrópu á 17. öld.

Hafnaði Kristrún í 18. sæti, jöfn keppinauti sínum í því 17. en þegar svo er sker líkamsþyngd keppenda úr og léttari keppandi hreppir efra sæti. Kristrún vigtaðist þyngri inn á mótið og þar skildi milli feigs og ófeigs.

Úr frábæru í fínt

„Þetta var einu deddi [réttstöðulyftu] frá því að vera frábært mót en endaði á því að vera fínt,“ segir Kristrún sem sló Íslandsmet í hnébeygju með 127,5 kg lyftu, endaði með 77,5 kg í bekkpressu og lyfti 140 kg í réttstöðulyftu. „Ég tek þá smá séns og reyni við 150 kíló sem hefði verið bæting á mínum besta árangri og verið nýtt Íslandsmet í samanlögðu,“ heldur læknaneminn áfram en 150 kílóin vildu dómendur ekki viðurkenna sem gilda lyftu vegna tæknilegs atriðis við lyftuna.

Allt gefið í lyftuna. Alexander í dýpstu stöðu í beygjunni …
Allt gefið í lyftuna. Alexander í dýpstu stöðu í beygjunni á meðan stangarmennirnir gæta vel að hverju feilspori, tilbúnir að grípa inn í á ögurstundu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig skyldi daglegt líf keppnisfólks í kraftlyftingum og starfsfólks heilbrigðiskerfisins að auki ganga fyrir sig í sambúð? Væntanlega skortir ekki umræðuefnin?

„Það var mikið sem rann saman þegar við byrjuðum saman,“ segir Alexander og hlær, þakkar fyrir að þau Kristrún eigi fleira sameiginlegt en stálið, þar sem raunvísindi mannlegs heilbrigðis skarast jafnframt í agaðri tilveru keppnisfólks á framabraut.

Kveður Alexander einstakt félagslíf lyftingafólks í Breiðabliki einnig eiga stóran þátt í lífi þeirra Kristrúnar. „Ég skipti yfir í Breiðablik úr Kraftlyftingafélagi Akraness árið 2020, þegar ég flutti í bæinn, og þá var ekki eins fjölmennt í félaginu og núna,“ segir Alexander og tekur í sama streng og mörg lyftingakempan er rætt hefur við mbl.is síðustu ár – kraftlyftingum á Íslandi vex fiskur um hrygg sem aldrei fyrr, iðkendum fjölgar ört, stúlkur gerast atkvæðameiri við stálið og þátttökumet eru slegin á mótum ár eftir ár, eins og Hinrik Pálsson, formaður Kraftlyftingasambands Íslands, hefur nýlega greint frá hér á vefnum.

Ætlaði sér aldrei í kraftlyftingar

„Það er bara eins og allir sem koma nýir inn í lyftingarnar í Breiðabliki passi þar inn,“ segir Alexander, „þetta er bara einn stór vinahópur og íþróttin í raun að þróast yfir í að vera liðsíþrótt frekar en einstaklingsíþrótt.“

Í blíðu og stríðu styðja Alexander og Kristrún hvort annað …
Í blíðu og stríðu styðja Alexander og Kristrún hvort annað með ráðum og dáð á mótum, í lífinu og jafnvel við að viðra hundinn. Ljósmynd/Aðsend

Kristrún fellst á þetta með unnusta sínum. „Þetta væri klárlega ekki þess virði ef það væri ekki fyrir fólkið sem er þarna, samfélagið í Breiðabliki er einstakt og maður er aldrei að lyfta einn á pallinum, það eru allir að peppa mann upp,“ segir hún og lýkur lofsorði á stóraukna þátttöku kvenna í íþróttinni. „Ég ætlaði mér aldrei í kraftlyftingar af öllum íþróttum en manni er tekið svo opnum örmum þarna, það er bara ólýsanlegt að ganga þarna inn,“ segir hún.

Talið berst að þeim sem landið erfa, börnum. Eru þau í spilinu? „Nei, alls ekki, ekki núna,“ flýtir Kristrún sér að svara, forgangsröðin á heimilinu gerir ráð fyrir öðru í bili.

Óvægin áskorun

„Ég grínast oft með að það sé kostur að vera lágvaxinn í kraftlyftingum og við erum bæði tiltölulega lág í loftinu svo við erum mjög sátt við að afkomendur okkar verða svipaðir, og við endum á að ala af okkur herdeild af kraftlyftingafólki í framtíðinni,“ segir Skagamaðurinn og hlær.

Kristrún gengur undir stöngina í hnébeygjunni í Litáen.
Kristrún gengur undir stöngina í hnébeygjunni í Litáen. Ljósmynd/Aðsend

Hér slysast blaðamaður, sem er 194 sentimetrar á hæð, til að ræða hve handleggjalengd hafi gjarnan staðið honum fyrir þrifum í bekkpressu, en iðrast lausmælgi sinnar þegar Kristrún stígur fram með hárbeitta áskorun og krefst þess að fá að sjá undirritaðan á keppnispalli í kraftlyftingum. Þar lágu Danir í því.

Spyrjum að leikslokum með slíkar raunir en parið er hins vegar spurt hvernig venjulegur dagur gangi fyrir sig í annríki keppnis-, náms- og vinnandi fólks.

„Ég er í skólanum átta til fjögur alla daga, stundum sjö til fimm. Nú var ég að klára fimmta árið í læknisfræðinni og þá róterum við á milli deilda, ég var að klára sex vikur á kvennadeildinni og fer núna í sex vikur á barnadeildinni. Svo bruna ég á æfingu beint eftir skóla fjórum sinnum í viku,“ svarar Kristrún og kveður sumt geta virkað hálfsúrrealískt með svo ólíka þætti í lífinu.

Af kvennadeild í stálið

„Ég var á kvennadeildinni og var þar viðstödd þegar ljósmóðir tók á móti barni en hálftíma síðar var ég mætt í salinn í upphitun fyrir hnébeygjuæfingu. Ég segi fólki oft hve gott það sé að vera í skólanum þar sem vitsmunirnir eru allt og svo geti maður mætt á æfingu og bara slökkt á þeim rofa. Þá er maður bara að hugsa um stöngina og að lyfta og framkvæma. Þótt dagskráin sé stíf er gott að hafa þessar andstæður í henni og svo förum við út með hundinn þegar við komum heim til að ná inn skrefunum,“ segir Kristrún og hlær dátt.

Sé eitthvað eftir af sólarhringnum, sem blaðamaður getur varla ímyndað sér, segir Kristrún það fara í að læra, hitta vini og eiga stundir saman sem par. „Og að sofa, þetta er nú ekki flóknara en það,“ klykkir hún út úr lýsingu á þó tiltölulega flókinni tilveru.

Seint verður sú góða vísa Jóns Páls Sigmarssonar heitins of …
Seint verður sú góða vísa Jóns Páls Sigmarssonar heitins of oft kveðin að engin ástæða sé til að vera á lífi ef fólk geti ekki tekið réttstöðulyftu. Kristrún býr sig undir loftvægi stangar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég vinn vaktavinnu í rannsóknarkjarna Landspítalans,“ segir Alexander frá þegar röðin kemur að honum, „þar er enginn dagur alveg eins en maður dettur í ákveðið mynstur sem eru dag-, kvöld- og helgarvaktir og það hentar mér ágætlega,“ heldur hann áfram og segir vel ganga að sníða vaktavinnuna að lyftingum, enda geti hann lagt fram ákveðnar vaktaóskir sem taka þá mið af æfingaálaginu.

Eina manneskju í einu

Viðtal við forvitnilega einstaklinga og gallhart keppnisfólk rennur brátt sitt skeið. Við forvitnumst í lokin um framtíð Alexanders og Kristrúnar, ef ekki sterkasta pars Íslands þá að minnsta kosti þess skipulagðasta – eða í einhverju efstu sæta á þeim lista.

„Við stefnum á að flytja út eftir nokkur ár, þegar Kristrún klárar grunnnámið og kandídatinn hér. Þá tekur við sérmenntun í útlöndum,“ segir Alexander sem vill ekki nefna ákveðið land enn sem komið er. „Norðurlöndin eða Bretland er svona það sem er í umræðunni, eitthvað nálægt,“ segir hann og Kristrún grípur orðið.

„Eina krafan er að þar sé góð aðstaða til að sinna æfingum,“ segir hún gallhörð og hann samsinnir: „Ég get alveg sagt fyrir okkur bæði að við erum ekkert að fara að hætta í kraftlyftingum þótt við skiptum um land,“ segir Alexander Örn Kárason af einurð og Kristrún Ingunn Sveinsdóttir á þau lokaorð sem munu lengi uppi verða um gervalla fósturjörð þeirra ofurparsins:

„Það er bara að læra að lifa og lyfta og klífa heimslistann eina manneskju í einu, það er planið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert