Óvenju miklar hitasveiflur í Bakkagerði

Hiti fór hæst upp í 25,4 gráður í Bakkagerði í …
Hiti fór hæst upp í 25,4 gráður í Bakkagerði í gær. Mynd úr safni. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Hiti fór hæst upp í 25,4 gráður í Bakkagerði á Borgarfirði eystri í gær. Hitastig á svæðinu sveiflaðist þannig um 25 gráður yfir daginn því í gærmorgun mældist hiti á staðnum 0,4 gráður. 

Björn Sævar Einarsson, fagstjóri flugveðurþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, segir ekki algengt að hitasveiflur séu svo miklar sama daginn, en áréttir þó að það gerist öðru hverju. 

Austfjarðaþokunni ekki um að kenna 

„Þetta er náttúrulega kannski óvenjulega mikið,“ segir Björn og útskýrir að yfirleitt séu hitasveiflur sem þessi algengari við sjóinn. 

„Því oftast lýtur þetta að því að sjórinn sé það hlýr, en þarna hefur greinilega andað af landi.“ 

Kort/Veðurstofa Íslands

Spurður hvort hin víðfræga Austfjarðaþoka geti hafa haft eitthvað með þetta að gera segir hann svo ekki vera. 

„Nei, þetta er alls ekki Austfjarðaþokan. Hún hefði komið í veg fyrir þetta. Þá hefði bara komið inn hiti sem er svipaður hitanum í sjónum,“ segir hann og bætir við að líklega hafi heldur verið bjart í veðri.  

„Það heldur áfram að kólna um nóttina, geislar beint út í geim, af því að það eru engin ský til að tefja fyrir útgeisluninni. Svo byrjar bara sólin að skína og svo heldur þetta áfram að hita upp. Það hefur aldrei komið nein hafgola til að brjóta það niður.“

Aðspurður segir hann hitabreytinguna ekki líklega til að hafa áhrif á jarðveginn á svæðinu með tilliti til skriðuhættu. Það sé aðallega vegna þess að hitastig fór ekki undir frostmark. 

Veður­vef­ur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert