„Er ekki svefnsamt meðan ástandið er svona“

Mikill urgur er í mótorhjólasamfélaginu vegna biksblæðingar á vegum landsins.
Mikill urgur er í mótorhjólasamfélaginu vegna biksblæðingar á vegum landsins. Ljósmynd/Aðsend

Hlífar Þorsteinsson, sem rekur rútufyrirtækið Austfjarðaleið og er virkur félagi í félagi Harley-eigenda á Íslandi, er einn þeirra sem hefur gagnrýnt ákvörðun Vegagerðarinnar um að nota sand á bikblæðingu.

Hlífar sagði í samtali við mbl.is í gær að sandur á bikblæðingu geti haft það í för með sér að vegir verði mjög hálir og hafi reynst ökumönnum mótorhjóla stórhættulegir. Mjög mik­ill urg­ur ríki í mótor­hjóla­heim­in­um vegna ástands veg­a víða um land.

Um helgina varaði Vegagerðin við bikblæðingum á veginum um Fagradal fyrir austan og var hámarkshraði þar tekinn niður í 50 km/klst.

Hlífar situr í hópi sem hittir reglulega starfsmenn frá Vegagerðinni og segist hann hafa átt samskipti við Svein Sveinsson, umdæmisstjóra hjá Vegagerðinni, og þar áður við Einar Þorvarðarson, forvera Sveins í starfinu.

„Það var sama hvenær sólarhringsins maður kom boðum til þeirra – ef það voru einhverjar hættur á vegunum þá voru þeir komnir á staðinn til að reyna að fyrirbyggja slys. Ég þykist vita að Sveinn er að gera allt sem hann getur og honum er ekki svefnsamt meðan ástandið er svona,“ segir Hlífar við mbl.is.

Hlífar segir að eftir Kjalarnesslysið árið 2020 þá hafi hann verið skipaður í umferðaröryggisnefnd og setið fundi með Vegagerðinni ásamt Sniglunum.

„Birkir Rafn Jóakimsson stýrði þessu og það var sama með hann. Hann lagði sig fram um að koma malbikinu í lag og við gátum hringt í hann hvenær sólarhrings sem var og hann var mættur til að lagfæra. Því miður hætti hann hjá Vegagerðinni um síðustu áramót og aðrir tóku við.“

Hafi átti að gera miklu meira í öryggismálum

Hlífar segir að gera hafi átt miklu meira í öryggismálum og meðal annars hafi verið fundur með Vegagerðinni í vor þar sem lögregla og fulltrúar frá Samgöngustofu áttu að mæta en boðun á fundinn hafi eitthvað misfarist.

„Þessi fundur var tilgangslítill og við sem mættum á hann fórum út af honum vonsviknir yfir því að ekkert gerðist. Það stóð svo til að halda annan fund fyrir sumarfrí og koma þessum málum áfram. Við heyrðum ekkert frá Vegagerðinni og vorum farnir að ókyrrast og ætluðum að fara að ýta við þeim þegar blæðingar út um landið fóru að láta á sér kræla,“ segir Hlífar.

Hann segir að þeir hafi verið óhressir með svör fjölmiðlafulltrúa og forstjóra Vegagerðarinnar og hve lítið þau hafi gert úr þessu.

Að fá síðan fréttir um að það eigi að fara að gera tilraun með malbik á Reykjanesbrautinni, sem búið er að leggja á án þess að kynna það fyrir nefndinni sem hafi sérstaklega verið að fjalla um lélegt malbik, séu ekki góð vinnubrögð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert