Nýr vindorkugarður sem fyrirhugað er að reisa í landi Sólheima í Dalabyggð mun skila um 209 MW af rafmagni með uppsetningu 29 vindmylla. Þetta kemur fram í umhverfismatsskýrslu sem Qair Iceland hefur lagt fram og er til kynningar í Skipulagsgátt. Öllum er frjálst að skila inn umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar fram til 3. september næstkomandi.
Í samantekt matsskýrslunnar kemur fram að framkvæmdasvæðið sam- anstandi af 3.208 hektara landi á eystri mörkum sveitarfélagsins Dalabyggðar. Búðardalur er um 23 kílómetra vestur af framkvæmdasvæðinu en Borðeyri er í um það bil 10 kílómetra fjarlægð í austur.
Gert er ráð fyrir að vindmyllugarðurinn verði þróaður í tveimur áföngum, 21 vindmylla verði í þeim fyrri en átta bætast svo við í þeim síðari.
Vindmyllurnar verða 200 metrar á hæð, hæð turns verður 119 metrar og lengd blaðs verður 81 metri. Búist er við að framkvæmdir við verkefnið muni vara í 32 mánuði í tveimur áföngum og reiknað er með að um 47 hektarar lands fari undir framkvæmdirnar. Um 16 kílómetrar af nýjum vegum verða lagðir og 3,5 kílómetrar af styrktum vegum.
Raflagnir á framkvæmdasvæðinu verða lagðar neðanjarðar innan framkvæmdasvæðis tengivega þar sem því verður við komið. Þær tengja aflspenna vindmylla við stjórnbyggingu og safnstöð vindorkugarðsins.
Aflspennar í safnstöðinni umbreyta svo rafspennunni áður en hún er flutt yfir í raforkunetið um háspennulínur, að því er segir í samantekt. Ljóst er að framkvæmd sem þessi hefur áhrif á það svæði sem undir hana fer og jafnvel víðar.
Þannig er þess getið í skýrslunni að öll undirbúningsvinna, vegagerð og jarðvinna geti valdið breytingum á flæði yfirborðsvatns á svæðinu. Hljóðmengun verður af vindmyllunum, bæði frá vélbúnaði þeirra og við hreyfingu spaðanna í gegnum loftið. Í skýrslunni segir að nútímavindmyllur séu þó hannaðar til að lágmarka hljóðvist. Hærri hljóðmörk en ella verða í gildi enda sé næsti heyrandi bújörðin Sólheimar og hafi ábúendur þar fjárhagslega hagsmuni af framkvæmdinni.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.