„Áfall fyrir bæjarfélagið“

Akranes.
Akranes. mbl.is

„Þetta er áfall fyr­ir bæj­ar­fé­lagið á Akra­nesi að missa þetta fé­lag úr rekstri. Þetta er vagga þekk­ing­ar og hug­vits og fjöldi verðmætra starfa sem þarna eru,“ seg­ir Har­ald­ur Bene­dikts­son, bæj­ar­stjóri Akra­ness, um gjaldþrot Skag­ans 3X.

Auk þess fjölda fólks sem miss­ir störf sín nefn­ir hann und­ir­verk­taka og þjón­ustu­störf sem verða fyr­ir áhrif­um af gjaldþrot­inu.

Áhrif vegna Úkraínu­stríðs og Covid-19

Spurður út í aðdrag­anda gjaldþrots­ins seg­ir hann bæj­ar­yf­ir­völd á Akra­nesi hafa verið í ágætu sam­starfi við stjórn­end­ur fyr­ir­tæk­is­ins. Stór­ir at­b­urðir liðinna ára hafi haft slæm áhrif á rekst­ur­inn. Nefn­ir hann sér­stak­lega af­leiðing­ar af völd­um stríðsins í Úkraínu, þar á meðal viðskipta­bann, og af völd­um kór­ónu­veirunn­ar.

Haraldur Benediktsson.
Har­ald­ur Bene­dikts­son. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

„Við vor­um vongóð um að það tæk­ist að ná fyr­ir­tæk­inu aft­ur fyr­ir vind­inn en því miður er þetta staðan,“ seg­ir hann.

Starfs­mönn­um Skag­ans 3X var til­kynnt um gjaldþrotið á fundi í morg­un. Har­ald­ur seg­ir fólkið hafa í kjöl­farið farið til síns heima og að næstu dag­ar fari í að finna skipta­stjóra.

Skaginn 3X á Akranesi er gjaldþrota.
Skag­inn 3X á Akra­nesi er gjaldþrota. Ljós­mynd/​Skag­inn 3X

Mjög fram­sækið fyr­ir­tæki

Hann nefn­ir að Skag­inn 3X sé þekk­ing­ar­fyr­ir­tæki sem hafi verið mjög fram­sækið á sviði tækni, ný­sköp­un­ar og þró­un­ar. Tækja­búnaður fyr­ir mat­vælaiðnað hafi verið meg­in­starf­semi fé­lags­ins en mat­væla­fram­leiðsla sé stóra verk­efni heims­ins í dag.

Skag­inn 3X hef­ur verið með bækistöðvar við Bakka­tún á Akra­nesi þar sem skipa­smíðastöð Þor­geirs og Ell­erts var áður til húsa.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert