Olli árekstri og stakk af

Lögreglan sinnir fjölbreyttum útköllum.
Lögreglan sinnir fjölbreyttum útköllum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um árekstur í miðbænum þar sem ökumaður hafði flúið vettvang, en hann olli árekstrinum. Hann var stöðvaður skömmu síðar af lögreglu og er hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Þá handtók lögreglan mann vegna líkamsárás. Það var lögreglustöð fjögur sem sinnti útkallinu, en hún sinnir verkefnum í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi.

Greiddi ekki fyrir matinn

Í hverfi 108 var tilkynnt um fjársvik á veitingastað. Maður hafði fengið sér að borða en fór svo af veitingastaðnum án þess að greiða fyrir matinn. Hann er enn ófundinn.   

Í hverfi 105 var tilkynnt um þjófnað á farsíma. Þjófurinn er ókunnur.

Í Hafnarfirði var tilkynnt um þjófnað úr verslun. Málið var afgreitt á vettvangi. Í Breiðholti var einnig tilkynnt um þjófnað úr verslun og var málið sömuleiðis afgreitt á vettvangi.

Keyrði á of miklum hraða

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Kópavogi. Í dagbók lögreglu kemur fram að engin meiðsl hafi verið á fólki.

Í Hafnarfirði var ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur, en hann ók á 89 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Málið var afgreitt með sekt.

Í Hafnarfirði var annar ökumaður stöðvaður í akstri fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar. Málið var jafnframt afgreitt með sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert