Aðsókn í Kringluna eykst með hverjum degi

Inga Rut Jónsdóttir framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Inga Rut Jónsdóttir framkvæmdastjóri Kringlunnar. mbl.is/Eyþór

Allt þokast nú í rétta átt í Kringlunni eftir brunann sem varð þar 15. júní. Inga Rut Jónsdóttir framkvæmdastjóri Kringlunnar segir í viðtali við mbl.is að staðan sé að lagast með hverjum degi og að brátt opni fleiri verslanir að nýju.

„Við erum alltaf að opna eina og eina búð, sem er mjög jákvætt, þetta snýst svolítið um að fólk náttúrulega missti út allar vörurnar og er að bíða eftir því að fá sendingar. Þannig að það verða svona tíu til ellefu búðir sem opna ekkert fyrr en í haust,“ segir Inga.

Aðsókn komin í venjulegt horf

Hún segir að aðsóknin fyrstu dagana eftir brunann hafi verið 90% miðað við venjulegt árferði. Í fyrradag hafi hún verið á pari. „Svo vorum við bara vel yfir í gær til dæmis, þannig að þetta er allt að koma.“

Hún bætir við að nýi pílustaðurinn Oche sé sérstaklega vinsæll, þar sem öll kvöld eru upppöntuð og staðurinn gangi vonum framar.

Samstaða og jákvæðni meðal aðila

Inga Rut lýsir mikilli samstöðu meðal rekstraraðila og eigenda verslana. „Það er mikil samstaða, allir eru á sömu vegferð að drífa af framkvæmdir og opna sem fyrst. Það er það sem allir eru að vinna að,“ segir hún. 

„Það verða svona tíu til ellefu búðir sem opna ekkert …
„Það verða svona tíu til ellefu búðir sem opna ekkert fyrr en í haust,” segir framkvæmdastjóri Kringlunar. mbl.is/Eyþór

Meira tjón en búist var við

Hún viðurkennir þó að ýmislegt óvænt hafi komið í ljós í tiltektinni eftir brunann. „Á þeim rýmum sem lentu í mesta tjóninu þarf að rífa mikið, bæði gifs og annað, sem fólk hafði kannski ekki búist við að þyrfti,“ útskýrir Inga Rut.

Samskipti við tryggingafélög hafa verið regluleg og umfangsmikil. „Við erum á reglulegum fundum með tryggingafélögunum. Húsið er tryggt hjá einum aðila og rekstraraðilar hjá öðrum, þannig þetta þarf alltaf að passa saman. Það er mikil vinna í kringum það,“ segir Inga Rut.

Öll bil full í haust

Inga Rut hefur fulla trú á að allar búðir muni opna að lokum, þótt sumir rekstraraðilar hafi áhuga á breytingum á stærð eða innréttingum.

„Já, það verður fullt í öllum þessum bilum í haust,“ segir hún og bendir á breytingar, eins og til dæmis fyrir Nespresso, sem verði með pop-up-stað undir rúllustiganum á neðstu hæð.

„Við erum að gera alls konar með aðilunum svo þeir geti boðið upp á þjónustu sína,“ útskýrir Inga Rut að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert