Íslendingar hlupu undan vopnuðum manni í Helsinki

Bryndís Sara Hróbjartsdóttir ásamt kærasta sínum, Benóný Snæ.
Bryndís Sara Hróbjartsdóttir ásamt kærasta sínum, Benóný Snæ. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskt par og 14 ára stúlka þurftu að hlaupa eins og fætur toguðu undan manni vopnuðum stórum hníf í finnsku höfuðborginni Helsinki, á miðvikudagskvöld.

Bryndís Sara Hróbjartsdóttir ásamt kærasta sínum, Benóný Snæ, og litlu systur hennar sem er 14 ára, eru í Finnlandi til að styðja 12 ára bróður þeirra systra á fótboltamótinu Helsinki cup, ásamt móður þeirra systkina.

Seint á miðvikudagskvöld fóru þau Bryndís, Benóný og litla systir Bryndísar að fá sér að borða á McDonalds sem er í um sjö mínútna göngufæri frá íbúðinni sem þau dvelja í á meðan mótinu stendur.

Taldi líklegast að einhver væri að elta þau

„Á bakaleiðinni segir kærastinn minn að það væri líklegast einhver að elta okkur. Ég sagði honum að vera ekkert að vera að pæla í því, ég hélt að þetta væri eitthvað algjört bull,“ segir Bryndís Sara, í samtali við mbl.is.

Þetta var um klukkan hálf eitt eftir miðnætti. Þá kom annar ökumaður á öðrum bíl, sem var greinilega að elta þau, að sögn Bryndísar.

„Hann byrjaði að keyra mjög hægt og stoppa. Keyra aftur mjög hægt og stoppa,“ segir Bryndís, en hún lýsir bifreiðinni sem svörtum „station-bíl“. 

Stöðvaði bifreiðina fyrir þeim

Ökumaðurinn beygði þá inn götu sem þau þrjú þurftu að ganga yfir og stöðvaði á gatnamótunum þannig að bifreiðin stóð í vegi fyrir þeim.

 „Þá vorum við virkilega farin að taka þessu mjög alvarlega. Svo þurfum við að ganga fyrir aftan bílinn til að komast fram hjá honum.

Þá opnar hann hurðina hjá sér og byrjar að kalla eitthvað á okkur. Þá öskrar kærasti minn á okkur að byrja að hlaupa, þannig að við byrjum að skokka eitthvað smá.“

Skynjaði ógnina

Benóný Snær átti þá í einhverjum samskiptum við manninn, sem talaði bara finnsku. Benóný skyldi ekki hvað hann sagði, en hann skynjaði ógnina, að sögn Bryndísar.

Ökumaðurinn steig þá út úr bílnum með stóran hníf, svipuðum þeim sem Sylvester Stallone, í hlutverki John Rambo, var þekktur fyrir að nota í samnefndum kvikmyndum.

Ökumaðurinn missti þá hnífinn í götuna og öskraði þá Benóný á systurnar að hlaupa eins hratt og þær gætu í burtu.

Gatan í Helsinki þar sem systurnar og Benóný þurftu að …
Gatan í Helsinki þar sem systurnar og Benóný þurftu að hlaupa fyrir lífi sínu. Ljósmynd/Aðsend

Hljóp á eftir þeim með hníf á lofti

„Við vissum ekkert hvað var í gangi,“ segir Bryndís og bætir við að þær systur hafi hlaupið af fullum krafti í burtu.

Á eftir þeim hljóp Benóný og passaði að maðurinn með hnífinn myndi ekki ná þeim systrum, að sögn Bryndísar. 

Á eftir honum hljóp maðurinn með hnífinn á lofti. Hann hljóp um helming leiðarinnar í íbúðina, áður en hann stöðvaði og sneri við. 

Bryndís gerir ráð fyrir að árásarmaðurinn hafi hlaupið á eftir þeim um 200-300 metra af leiðinni heim í íbúð. Litlu mátti muna að litla systir hennar hefði orðið fyrir sporvagni í eftirförinni.

Þau hafi þá óttast að maðurinn væri jafnvel að fara að safna liði og koma aftur á eftir þeim, en eins og kom hér áður fram var svarti „station-bíllinn“ önnur bifreiðin sem þau grunuðu að hefði verið notuð til að elta þau þetta kvöldið.

Miðborg Helsinki með svipmikla dómkirkju borgarinnar, Helsingin tuomiokirkko, fyrir miðju.
Miðborg Helsinki með svipmikla dómkirkju borgarinnar, Helsingin tuomiokirkko, fyrir miðju. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Allt tiltækt lögreglulið að leita að manninum

Eftir að þau komu heim þá hringdu þau strax í lögregluna sem hóf þegar leit að manninum, að því er lögreglan tjáði þeim.

Bryndís segir að lögreglan hafi sagt þeim að allt tiltækt lögreglulið hefði verið sent til að leita að manninum, en Benóný náði bílnúmerinu af bifreiðinni og sagði frá.

Það var ekki fyrr en á þessum tímapunkti sem þau tengdu þriðju bifreiðina við málið. Fyrr um daginn hefði maður í rauðri bifreið starað grunsamlega á þau þrjú fyrir utan íbúðina þeirra.

Alls hafi þetta verið þrír menn á þremur bílum. Þau geta ekki sagt fyrir víst hvað vakti fyrir mönnunum en Bryndís þakkar Benóný fyrir að hafa séð hnífamanninn snemma og látið systurnar hlaupa á undan.

Maðurinn enn ófundinn

Ida Nieminen, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Helsinki, segir í skriflegu svari við spurningum mbl.is að lögreglan hafi vissulega sinnt útkalli sem stemmir við frásögn Bryndísar, á miðvikudagskvöld. 

Hinn grunaði hafi enn ekki fundist. 

Eftir að þau komu heim í íbúðina, þar sem drengurinn og móðirin voru fyrir, þá lýsir Bryndís því þannig að þau hafi öll fengið einhvers konar taugaáfall.

Bryndís segir að hún sé búin að vera mjög kvíðin eftir atvikið og eigi erfitt með svefn.

„Þetta er búið að fara mjög illa í okkur. Maður er alveg smeykur við að vera úti eftir þetta, eins og á kvöldi til, sem við erum lítið að gera núna,“ segir Bryndís, en fjölskyldan fer heim til Íslands á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert