Átján manns sem ákærðir eru fyrir grun um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna mæta fyrir dóm 12. ágúst í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara.
Umræður hafa sprottið upp vegna umfangs málsins og fjölda sakborninga. Vöknuðu þá upp spurningar hvort að réttarhöld færu fram í stærra húsnæði, svipað og gert var í Bankastrætismálinu. Karl staðfesti að þess þyrfti ekki og að réttarhöldin muni fara fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á rúmlega sex kíló af kókaíni og amfetamíni. Einnig lagði lögregla hald á lyf, stera, fíkniefni, peningatalningavél, skotvopn og 40 milljónir króna í reiðufé.
Flestir sakborninganna voru handteknir í aðgerðum lögreglu um miðjan apríl, en þá stóð hópurinn fyrir komu tveggja manna sem fluttu fíkniefni til landsins með skemmtiferðaskipi.