Móðirin metin sakhæf í Nýbýlavegsmáli

Útkall barst lögreglu vegna málsins þann 31. janúar.
Útkall barst lögreglu vegna málsins þann 31. janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Matsmenn í máli fimmtugrar móður sem sökuð er um að hafa orðið sex ára syni sínum að bana, og gert tilraun til þess að deyða eldri son sinn sömuleiðis, hafa komist að þeirri niðurstöðu að konan sé sakhæf. 

Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson saksóknari hjá héraðssaksóknara í samtali við mbl.is

Þá segir hann að konan hafi játað sök. 

„Hún játar þessa háttsemi sem henni er gefið að sök en telur sig hafa verið í þannig ástandi að verkið sé refsilaust“, segir Karl Ingi. 

Yngri sonurinn látinn og sá eldri farinn í skólann

Málið kom upp í lok janúar á þessu ári. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu berst útkall um klukkan 07:30 þann 31. janúar. Ljóst er að móðirin hafði sjálf samband við lögreglu en sex ára sonur hennar var látinn þegar lögreglu bar að garði. Þá var eldri sonur konunnar farinn í skólann. 

Konan er af erlendu bergi brotin og bjó á Nýbýlavegi ásamt sonum sínum tveimur. Faðir drengjanna bjó annars staðar á Íslandi. Nýtur fjölskyldan alþjóðlegrar verndar og hefur verið búsett hérlendis í um 4 ár. 

Drengurinn sem lést var nemandi í fyrsta bekk við Álfhólsskóla og var áfallateymi skólans virkjað í kjölfar andlátsins. 

Ákærð fyrir manndráp

Móðir drengjanna var úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna málsins að kvöldi 31. janúar og var úrskurðurinn kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. Málið var sent frá ákærusviði lögreglunnar til héraðssaksóknara í apríl. Ákæra var gefin út á hendur konunni í lok apríl og var málið þingfest þann 3. maí í Héraðsdómi Reykjaness. Þinghald var lokað. 

Konan er annars vegar ákærð fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi og hins vegar tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi. 

Vaknaði við atlögu móður sinnar

Í ákærunni kemur fram að kon­an hafi svipt son sinn lífi með að setja kodda yfir and­lit hans og með báðum hönd­um þrýst kodd­an­um yfir vit hans, þrýst á háls hans og efri hluta brjóst­kassa hans og ekki linað þau tök fyrr en dreng­ur­inn var lát­inn. Lést hann af völd­um köfn­un­ar að því er fram kem­ur í ákær­unni.

Þá er hún sögð hafa farið inn í svefn­her­bergi eldri drengs­ins þar sem hann lá sof­andi á mag­an­um, tekið fyr­ir vit hans með ann­arri hendi og í hnakka hans með hinni. Þrýsti hún and­liti hans niður í rúmið þannig að hann gat ekki andað. Vaknaði dreng­ur­inn við þessa at­lögu og gat losað sig úr taki móður­inn­ar.

Fyr­ir hönd eldri drengs­ins er farið fram á að móðirin greiði hon­um 10 millj­ón­ir í bætur, en auk þess fer faðir drengj­anna fram á 8 millj­ón­ir í bæt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka