Höfuðpaurinn í stóru fíkniefnamáli sem lögregla tilkynnti um á dögunum er sagður hafa ráðið og rekið fólk líkt og um hefðbundna fyrirtækja starfsemi væri að ræða. Þá hafi fólk í starfseminni þegið mánaðarleg laun og notið réttinda á borð við sumarleyfis og jafnvel veikindaleyfis, ef svo bar undir.
Þetta herma heimildir mbl.is og kemur fram í gögnum sem mbl.is hefur undir höndum.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að hann viti ekki til þess að fólk sem tengist þessu máli, eða sem starfi í kringum fíkniefnaheiminn hafi notið hlunninda á borð við sumarfrís en segir að almennt sé slík starfsemi mun skipulagðari en flesta gruni.
„Þetta er rekið eins og hver önnur starfsemi,“ segir Grímur.
Lögregla tilkynnti nýverið að hún hafi ákært 18 manns í tengslum við umfangsmikla fíkniefnastarfsemi. Hafði lögregla þá fylgst með starfseminni í hálft ár.
Var hún ákaflega umfangsmikil og tugir einstaklinga eru sagðir hafa komið að henni á undanförnum árum samkvæmt heimildum mbl.is.
Starfseminni var að miklu leyti stjórnað á samskiptaforritinu Signal. Þar bar fólk dulnefni til að hylja raunveruleg nöfn sín.
Í gögnum sem mbl.is hefur undir höndum kemur fram að aðdragandinn að handtökum í málinu megi rekja til komu skemmtiferðaskips til Íslands. Virðist hlutverkaskipting hafa verið skýr og þegar tveir manna úr starfseminni héldu til Suður-Evrópu í apríl síðastliðnum grunaði lögreglu strax að tilgangurinn væri að flytja inn fíkniefni til Íslands.
Þessir sömu menn dúkkuðu svo upp á farþegalista skemmtiferðaskips sem var á leið til Íslands frá Þýskalandi nokkrum dögum eftir að mennirnir yfirgáfu Ísland.
Mennirnir voru saman í káetu og þegar til Íslands var komið yfirgaf annar þeirra skipið fyrst. Var hann umsvifalaust gripinn af tollvörðum og lögreglu en fljótlega varð ljóst að hann hefði ekki fíkniefni meðferðis.
Maðurinn er talinn hafa í framhaldinu haft samband við höfuðpaurinn í málinu í gegnum samskiptaforritið Signal. Upphófst í framhaldinu ráðabrugg um það hvernig best væri að koma fíkniefnunum í land, en fíkniefnin voru meðal annars falin í pottum og eldhúsáhöldum. Meðal annars voru uppi hugmyndir um að koma fíkniefnunum í Zodiac-bát en ekkert varð af þeim áformum.
Maðurinn sem varð eftir á skipinu fékk upplýsingar um að lögregla og tollverðir væru á svæðinu og brá hann þá á það ráð að fara frá borði án þess að hafa fíkniefnin meðferðis.
Lögreglan og tollgæsla ákváðu að fara inn í skipið með leynd og skoðuðu káetu mannsins. Þar sást ekkert nema taska og tveir pottar. Lögregla gat ekki staðfest á þessum tímapunkti að fíkniefnin væru í eldhúsáhöldum, en strax vaknaði grunur um að svo væri.
Maðurinn kom skömmu síðar aftur að skipinu og fór um borð. Yfirgaf hann svo skipið með poka sem innihélt pönnur. Lögregla taldi sig vita að þar væru fíkniefnin geymd.
Maðurinn var ekki handtekinn strax, heldur var honum fylgt eftir. Fylgdist lögreglan með því þegar maðurinn var sóttur af ökumanni sem síðar var einnig ákærður í málinu. Þeir héldu í heimahús í Reykjavík þar sem maðurinn af skemmtiferðaskipinu varð eftir. Var hann handtekinn skömmu síðar í þann mund sem hann var að yfirgefa húsnæðið.
Ökumaðurinn hélt hins vegar áfram og ók í úthverfi í Reykjavík að heimili móður sinnar. Þar hafði hann plastað yfir borð og gerði sig líklegan til að opna pönnurnar sem innihéldu fíkniefnin með hjálp verkfæra þegar lögregla kom inn og handtók manninn.
Í ljós kom að grunurinn reyndist á rökum reistur. Fíkniefnin voru þar. Við skoðun á farsímagögnum mátti sjá að maðurinn hafði verið í samskiptum við höfuðpaurinn í gegnum samskiptaforritið Signal. Þar gekk höfuðpaurinn undir dulnefninu Pinogio sem er vísun í ævintýri Carlo Colloti um Gosa en flestir þekkja í útgáfu Disney.
Í framhaldinu fór lögregla að heimili höfuðpaursins og handtók hann. Þar fundust bæði fíkniefni og vopn. Manninum er meðal annars gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot og þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi.
Næst fór lögregla að heimili mannsins sem hafði upphaflega farið frá borði í skemmtiferðaskipinu og handtók hann.
Í framhaldinu fór lögregla að fleiri heimilum og framkvæmdi húsleitir og handtökur. Í heild hafa átján manns verið ákærðir en samkvæmt heimildum mbl.is komu mun fleiri að starfseminni með einum eða öðrum hætti á undanförnum árum.
Lögreglan hefur í rannsókn sinni lagt hald á fíkniefni, fíknilyf, stera, íblöndunarefni, grammavogir, peninga, peningatalningavélar, höggvopn, stunguvopn, skotvopn og skotfæri. Þá hafa fundust 40 milljónir króna í reiðufé sem taldar eru tengjast rannsókninni.