„Ég er þriggja barna móðir þótt ég sé bara með tvö börn hjá mér“

32 manna hlaupahópur hleypur til styrktar Gleym-Mér-Ei samtökunum og til …
32 manna hlaupahópur hleypur til styrktar Gleym-Mér-Ei samtökunum og til heiðurs Ylfu Dís. Ljósmynd/Aðsend

„Það er rosa súrrealískt að fæða lifandi barn og heyra í því gráta og svo kemur næsta barn og það heyrist ekkert.“

Þetta segir Guðrún Hildur Hauksdóttir en hún og kærastinn hennar, Björgvin Fjeldsted, áttu von á tvíburum í vor er í ljós kom að dóttir þeirra, Ylfa Dís, var ekki með hjartslátt. Sonur þeirra, Ísar Leó, var aftur á móti við góða heilsu.

32 vinir og vandamenn fjölskyldunnar hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu í ár til styrktar Gleym-mér-ei, styrktarfélagi sem styður við foreldra og fjölskyldur sem hafa upplifað missi á meðgöngu og í eða eftir fæðingu, og til heiðurs minningar Ylfu Dísar.

Hægt er að heita á hópinn hér.

Fjölskyldan kveðst ólýsanlega þakklát fyrir stuðning vina og vandamanna.
Fjölskyldan kveðst ólýsanlega þakklát fyrir stuðning vina og vandamanna. Ljósmynd/Aðsend

Ólýsanlegt að gleðjast og syrgja á sama tíma

„Þetta átti bara að vera venjulegur sónar með mælingum og svoleiðis, en í staðinn fengum við þær fréttir að það væri ekki hjartsláttur hjá tvíbura B.“

Erfitt ferli tók við í kjölfarið að sögn Guðrúnar, sem var þá komin tæpar 36 vikur á leið. Var hún send af heilsugæslustöðinni í Borgarnesi á Landspítalann í Reykjavík til frekari athugunar og var ákveðið að hún skydi ganga með bæði börnin í tvær vikur til viðbótar, þar sem tvíbura A, Ísari Leó, heilsaðist vel.

„Ég veit ekki hvernig ég samþykkti það þarna þegar ég hugsa út í það, en ég hugsaði bara að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að gera þótt ég myndi eflaust ekki sofa neitt í þessar tvær vikur. Þetta yrði bara erfiðasta verkefni lífs míns,“ segir Guðrún.

Við nánari athugun kom aftur á móti í ljós að Guðrún var byrjuð að fá samdrætti vegna mikils magns fósturblóðs frá Ylfu Dís í líkama hennar. Þar sem hún deildi ekki blóðflokki með tvíburunum átti hún á hættu með að mynda mótefni gegn hinum tvíburanum.

Var Guðrún að lokum send í bráðakeisaraskurð morguninn eftir, eftir svefnlausa nótt þar sem hún bað um að heyra hjartslátt Ísars Leó á u.þ.b. klukkutíma fresti. Tvíburarnir komu í heiminn 19. apríl, tæpum sólarhring eftir að þeim bárust fregnirnar af andláti Ylfu Dísar. Segir Guðrún þær blendnu tilfinningar sem hafi fylgt deginum nánast ólýsanlegar.

„Það er ekki hægt að útskýra þessa tilfinningu að gleðjast og á sama tíma að syrgja.“

„Það er ekki hægt að útskýra þessa tilfinningu að gleðjast …
„Það er ekki hægt að útskýra þessa tilfinningu að gleðjast og á sama tíma að syrgja.“ Ljósmynd/Aðsend

Kælivaggan veitti dýrmætan tíma

Strax eftir að þau fjölskyldan fóru aftur inn á sína stofu eftir fæðinguna segir Guðrún þeim hafa verið færður minningarkassi frá Gleym-Mér-Ei samtökunum.

Í honum hafi verið ýmsir munir fyrir fjölskylduna til að varðveita minningar með dótturinni, þ.á m. leir til að festa fótspor hennar í og armbönd með bláum gimstein, sem táknar gleym-mér-ei blómið, fyrir alla fjölskylduna og bangsar fyrir Ylfu Dís.

Þau hafi einnig fengið kælivöggu, sem samtökin færðu Landspítalanum að gjöf, svo þau gætu haft Ylfu hjá sér inni á stofunni eins lengi og þau vildu og treystu sér til.

„Þetta gerði svo mikið fyrir okkur að fá að skapa þarna minningar í þennan stutta tíma. Fá að hafa hana hjá okkur, við tókum fullt af minningum og tókum fjölskyldumyndir.“

Íris Eva við hlið kistu Ylfu Dísar.
Íris Eva við hlið kistu Ylfu Dísar. Ljósmynd/Aðsend

Leyfðu elstu dótturinni að hitta litlu systur

Það hafi sömuleiðis gefið þeim færi á að leyfa elstu dóttur sinni, Írisi Evu, að hitta litlu systur sína. Þau foreldrarnir hafi í fyrstu verið smeyk við að leyfa henni það en að lokum farið að ráðum djákna um að leyfa Írisi Evu að koma í heimsókn.

„Þetta er bara besta ákvörðun sem ég hef tekið að leyfa henni að vera með okkur í þessu ferli. Hún fékk að halda á henni og skoða nebbann á henni og að vera aðeins með litlu systur sinni.“

Guðrún segir stuðninginn sem henni og fjölskyldunni hafi verið veittur ómetanlegan og kveðst vona að söfnun hlaupahópsins veki athygli á samtökunum og geri þeim kleift að veita fleiri fjölskyldum í þeirra stöðu stuðning. Hún geti ekki heldur lofað ljósmæðurnar sem tóku á móti henni á Landspítalanum nóg.

„Ég eiginlega á ekki orð yfir hvað þær voru yndislegar og hjálpuðu okkur í gegnum þetta. Konan sem tók á móti okkur, ég bara man ekki hvað hún heitir en ég mun alltaf muna eftir andlitinu á henni og hversu ljúf… hún bara greip okkur gjörsamlega.“

„Hún er partur af fjölskyldunni. Ég er tvíburamóðir. Ég er …
„Hún er partur af fjölskyldunni. Ég er tvíburamóðir. Ég er þriggja barna móðir þótt ég sé bara með tvö börn hjá mér.“ Ljósmynd/Aðsend

„Ég er tvíburamóðir“

Vinir og vandamenn sem hafi gripið fjölskylduna í kjölfarið eigi ekki síður þakkir skilið og segir Guðrún fjölskylduna hafa fundið fyrir gríðarlegum stuðningi úr öllum áttum.

Það sýni sig ekki síst í því að samstarfskona Guðrúnar og mannsins hennar úr lögreglunni hafi efnt til hlaupahóps sem hlaupi til styrktar Gleym-Mér-Ei samtökunum og til heiðurs minningar Ylfu. Hópurinn telur nú 32 einstaklinga úr öllum áttum og enn bætist í hópinn. Þegar hafi safnast um 400 þúsund krónur.

„Ég bara veit ekki hvar ég væri án allra í kringum mig. Það er svo frábært að þau eru að tala um Ylfu Dís. Þessi hópur er að halda minningu hennar og maður fær hlýtt í hjartað segja nafnið hennar,“ segir Guðrún.

Aðspurð segir hún suma hrædda við að minnast á Ylfu Dís af ótta við að það kunni að vera of sárt eða erfitt. Það þurfi þó alls ekki að vera þannig.

„Hún er partur af fjölskyldunni. Ég er tvíburamóðir. Ég er þriggja barna móðir þótt ég sé bara með tvö börn hjá mér.“

Við leiði Ylfu Dísar.
Við leiði Ylfu Dísar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert