Fannst sofandi inni í tjaldi

Björgunarsveitir leituðu að manninum.
Björgunarsveitir leituðu að manninum. mbl.is/Óskar Pétur

Maðurinn sem leitað var að í Vestmannaeyjum er fundinn heill á húfi. Þetta staðfestir lögreglan í Vestmannaeyjum.

Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi einfaldlega verið sofandi inni í tjaldi. 

„Hann hafði bara einhvers staðar farið að sofa í einhverju tjaldi og vissi ekki meir.“

Segir Karl að maðurinn sé kominn niður á stöð þar sem verið sé að ræða við hann. 

„Hann virðist vera heill á húfi og við erum bara afskaplega ánægðir að afturkalla leitarflokka. Þetta fór eins vel og hægt var. Ég held að mönnum hérna í Vestmannaeyjum hafi verið létt við það að vita að hann sé heill á húfi,“ segir Karl.

Einhver sem hnippti í hann

Fannst hann þá inni í einhverju tjaldi eða gaf hann sig sjálfur fram?

„Það var einhver sem hnippti í hann. Einhver sem vissi að það væri verið að leita að honum,“ segir lögreglustjórinn og bætir við:

„Það var farið að deila þessu afskaplega mikið á samfélagsmiðlum og ég held að Eyjamenn hafi verið farnir að líta í kringum sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert