„Kannabis og eitthvað af hvítu“

Fjölmennt var í brekkunni að kvöldi föstudags á Þjóðhátíð í …
Fjölmennt var í brekkunni að kvöldi föstudags á Þjóðhátíð í Eyjum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Óvenjufá fíkniefnamál voru á borði lögreglunnar í Vestmannaeyjum yfir verslunarmannahelgina í ár. 

„Það var óvenjulítið af efnum þarna,“ segir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, og bætir við að málin hafi verið um tíu til fimmtán í heildina.

„Þetta var bara eitthvað smotterí.“

Segir hann engin stórmál hafa komið upp. Enginn var gómaður með fíkniefni í sinni vörslu sem ætluð voru til sölu eða dreifingar, að því er lögreglan telur.

Minna en á síðustu hátíðum

Eins og áður segir voru um tíu til fimmtán fíkniefnamál sem rötuðu á borð lögreglu um helgina. Eru það mun færri mál en á síðustu hátíðum.

„Þetta er sitt lítið af hverju, kannabis og eitthvað af hvítu. En þetta er mikið minna en undanfarnar hátíðir,“ segir Karl Gauti.

Engum vopnum var beitt á hátíðinni en lögregla lagði þó hald á nokkra hnífa. Voru þeir færri en tíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka