Í dag hefst aðalmeðferð í máli Péturs Jökuls Jónassonar í Héraðsdómi Reykjavíkur en hann er sakaður um tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með hlutdeild að stóra kókaínmálinu svokallaða.
Í nóvember voru Páll Jónsson, Birgir Halldórsson, Jóhannes Páll Durr og Daði Björnsson dæmdir í fimm til níu ára fangelsi í Landsrétti fyrir að hafa reynt að smygla tæplega 100 kg af kókaíni til landsins frá Brasilíu. Efnin voru falin í trjádrumbum og voru gerð upptæk í Rotterdam í Hollandi og gerviefnum komið fyrir í staðin.
Ljóst var frá upphafi að mennirnir fjórir voru ekki einir að verki. Í skýrslutökum yfir þeim í héraðsdómi í byrjun síðasta árs sögðust þeir einungis hafa verið milliliðir í smyglinu og oft var minnst á óþekktan skipuleggjanda, svonefndan Nonna.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar kemur fram að lögreglu grunaði aðkomu Péturs að smyglinu vegna tengsla við önnur sambærileg mál.
Hann var í Brasilíu er gámurinn með trjádrumbunum fór af stað til hafnar þar í landi í maí árið 2022. Þá er hann talinn hafa verið í samskiptum við Daða sem fjarlægði efnin úr timbrinu.
Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi sagði Daði að ónefndur einstaklingur hafi beðið hann um að geyma timbrið fyrir sig í húsnæði sem Daði hafði á leigu.
Hann sagði að maðurinn hafi ekki greint Daða frá því hvað væri í drumbunum og Daði ekki spurt í hvaða tilgangi hann ætti að geyma drumbana.
Daði sagði að hann hafi fundið fyrir miklum þrýstingi frá þessum ónefnda aðila og fundist hann vera fastur. Hann sagði samskiptin hafa valdið honum mikilli streitu.
Í október árið 2022 náði lögregla sambandi við Pétur og skoraði á hann að koma til landsins vegna rannsóknar málsins. Hann sinnti því hins vegar ekki. Gefin var út handtökuskipan og í febrúar síðastliðnum var lýst eftir Pétri á heimasíðu Interpol.
Í kjölfarið hafði Pétur samband við lögreglu í gegnum lögmann og óskaði eftir að koma beint til landsins svo hann yrði ekki handtekinn í því landi sem hann var staddur í.
Hann var handtekinn við komuna til Íslands 27. febrúar og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan þá.
Í ákærunni er Pétri gefin að sök tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots. Það er talið varða við 173. gr. a, sbr. 20. gr., í almennum hegningarlögum. Sannist sök getur brot gegn 173. gr. varðað allt að 12 ára fangavist. Tilraun til slíks brots, sbr. 20. gr. getur varðað jafnþungri refsingu. Hann neitar sök.
Aðalmeðferð í málinu lýkur á miðvikudag með málflutningi sækjanda og verjanda.