Aðalmeðferð í málinu gegn Pétri Jökli hefst í dag

Pétur Jökull Jónasson er 45 ára gamall.
Pétur Jökull Jónasson er 45 ára gamall.

Í dag hefst aðalmeðferð í máli Péturs Jökuls Jónassonar í Héraðsdómi Reykjavíkur en hann er sakaður um tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með hlutdeild að stóra kókaínmálinu svokallaða.

Í nóvember voru Páll Jónsson, Birgir Halldórsson, Jóhannes Páll Durr og Daði Björnsson dæmdir í fimm til níu ára fangelsi í Landsrétti fyrir að hafa reynt að smygla tæplega 100 kg af kókaíni til landsins frá Brasilíu. Efnin voru falin í trjádrumbum og voru gerð upptæk í Rotterdam í Hollandi og gerviefnum komið fyrir í staðin.

Ljóst var frá upphafi að mennirnir fjórir voru ekki einir að verki. Í skýrslutökum yfir þeim í héraðsdómi í byrjun síðasta árs sögðust þeir einungis hafa verið milliliðir í smyglinu og oft var minnst á óþekktan skipuleggjanda, svonefndan Nonna.

Var í Brasilíu er gámurinn fór af stað

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar kemur fram að lögreglu grunaði aðkomu Péturs að smyglinu vegna tengsla við önnur sambærileg mál. 

Hann var í Brasilíu er gámurinn með trjádrumbunum fór af stað til hafnar þar í landi í maí árið 2022. Þá er hann talinn hafa verið í samskiptum við Daða sem fjarlægði efnin úr timbrinu.

Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi sagði Daði að ónefndur einstaklingur hafi beðið hann um að geyma timbrið fyrir sig í húsnæði sem Daði hafði á leigu.

Hann sagði að maður­inn hafi ekki greint Daða frá því hvað væri í drumbunum og Daði ekki spurt í hvaða til­gangi hann ætti að geyma drumb­ana.

Daði sagði að hann hafi fundið fyr­ir mikl­um þrýst­ingi frá þess­um ónefnda aðila og fund­ist hann vera fast­ur. Hann sagði sam­skipt­in hafa valdið hon­um mik­illi streitu.

Allt að 12 ára fangelsisvist

Í október árið 2022 náði lögregla sambandi við Pétur og skoraði á hann að koma til landsins vegna rannsóknar málsins. Hann sinnti því hins vegar ekki. Gefin var út handtökuskipan og í febrúar síðastliðnum var lýst eftir Pétri á heimasíðu Interpol.

Í kjölfarið hafði Pétur samband við lögreglu í gegnum lögmann og óskaði eftir að koma beint til landsins svo hann yrði ekki handtekinn í því landi sem hann var staddur í.

Hann var handtekinn við komuna til Íslands 27. febrúar og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan þá.

Í ákærunni er Pétri gefin að sök tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots. Það er talið varða við 173. gr. a, sbr. 20. gr., í almennum hegningarlögum. Sannist sök getur brot gegn 173. gr. varðað allt að 12 ára fangavist. Tilraun til slíks brots, sbr. 20. gr. getur varðað jafnþungri refsingu. Hann neitar sök.

Aðalmeðferð í málinu lýkur á miðvikudag með málflutningi sækjanda og verjanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka