Allir sakborningar sem komnir voru fyrir þingfestingu í dag í stóru fíkniefnamáli neituðu sök í helstu ákæruliðum í málinu. Alls eru 18 manns ákærðir í málinu og voru 15 þeirra mættir fyrir dóm í dag.
Eru sakborningarnir ákærðir fyrir grun um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna.
Höfuðpaurinn í málinu neitaði sök í öllum helstu ákæruliðum en játaði þó vopna- og fíkniefnalagabrot.
Þrír sakborninganna gátu ekki mætt fyrir dóm í dag og þurfa því að mæta miðvikudaginn 21. ágúst og gera grein fyrir sinni afstöðu.
Þeir 15 sakborninga sem mættir voru, ásamt höfuðpaur málsins, neituðu sök en játuðu þó einhverjir á sig minni brot er vörðuðu vörslu fíkniefna, en þó ekki til dreifingar. Var þá öllum upptökukröfum mótmælt eða hafnað og vörðuðu flestar þeirra upptöku á síma.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari og dómari í málinu lagði áherslu á að aðalmeðferð málsins myndi hefjast fljótlega þar sem fjórir sakborninga sæta nú gæsluvarðhaldi. Stefnt er á að aðalmeðferð málins verði frá 24.-29. september.