Bóluefni hafi fækkað dauðsföllum

Bóluefni gegn COVID-19 fækkuðu dauðsföllum um 59% samkvæmt niðurstöðum rannsóknar …
Bóluefni gegn COVID-19 fækkuðu dauðsföllum um 59% samkvæmt niðurstöðum rannsóknar WHO í Evrópu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bóluefni við covid-19 komu í veg fyrir fjölda dauðsfalla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Evrópu. 

Frá því að bóluefni gegn covid-19 voru fyrst tekin í notkun í desember 2020 og þangað til í mars 2023 fækkuðu bóluefnin dauðsföllum vegna heimsfaraldursins um 59% og björguðu þannig rúmlega 1,6 milljónum mannslífum í Evrópu. 

Niðurstöður nýrrar rannsóknar voru birtar í tímaritinu The Lancet Respiratory Medicine á dögunum. Embætti landlæknis birti samantekt úr rannsókninni á vef sínum

Rannsóknin leiðir í ljós að þau 2,2 milljón dauðsföll sem tengd eru kórónuveirufaraldrinum, sem vitað er um á svæðinu, hefðu orðið allt að 4 milljónir án bólusetninganna.

Komu í veg fyrir 542 dauðsföll á Íslandi

Samkvæmt rannsókn WHO, komu bóluefnin í veg fyrir 542 dauðsföll á þessu 2,5 ára tímabili á Íslandi og meirihluti þeirra hefði verið í aldurshópnum eldri en 60 ára.

Bólusetningar komu því í veg fyrir 70% þeirra covid-dauðsfalla sem annars hefði mátt búast við án bólusetninga hérlendis. Sóttvarnalæknir lagði til íslensk gögn til rannsóknarinnar og er meðhöfundur greinarinnar.

Sóttvarnalæknir lagði til íslensk gögn til rannsóknarinnar og er meðhöfundur greinarinnar.

WHO rannsóknin leiddi einnig í ljós að bólusetningarnar björguðu flestum mannslífum á tímabilinu þegar ómíkron-afbrigðið var ríkjandi, frá desember 2021 til mars 2023.

Í löndum þar sem bólusetningaráætlanir voru innleiddar snemma í faraldrinum og sem náðu til stórs hluta þjóðarinnar, þar á meðal á Íslandi, varð hvað mestur ávinningur hvað varðar fjölda mannslífa sem var bjargað.

Hvað þýðir „sumarbylgja“ kórónuveirutilfella?

Undanfarnar vikur hefur verið tilkynnt um fleiri kórónuveirutilfelli í nokkrum löndum á Evrópusvæðinu. Það er áminning um að á meðan kórónuveiran er að hverfa mörgum úr minni hefur veiran ekki farið í burtu.

Þó að fjöldi tilfella í sumar sé lægri nú en í síðustu „vetrarbylgju“, sem náði hámarki í desember 2023, eru enn innlagnir á sjúkrahús og dauðsföll vegna covid-19-veikinda í Evrópu. Ólíkt árstíðabundinni inflúensu er kórónuveiran enn í dreifingu árið um kring.

Þangað til þetta mynstur breytist gætu komið margar bylgjur smita á hverju ári í Evrópu, sem reynir á heilbrigðiskerfið og eykur líkurnar á veikindum, sérstaklega hjá viðkvæmum einstaklingum.

Ómögulegt að spá fyrir um framhaldið

WHO leggur áherslu á að þrátt fyrir að við séum nú komin út úr heimsfaraldrinum, heldur fólk áfram að smitast af kórónuveirunni. Það leiði til sjúkrahúsinnlagna og dauðsfalla í Evrópu. 

Ómögulegt er að spá fyrir um hvernig veiran muni hegða sér það sem eftir er ársins 2024. Fleiri bylgjur gætu verið mögulegar nú þegar farið er úr neyðarástandi yfir í viðvarandi ástand í Evrópu.

WHO í Evrópu hvetur aðildarríki til að halda áfram  bólusetningum sem beinist að viðkvæmum hópum og hvetur einstaklinga í áhættuhópum til að þiggja uppfært bóluefni. Sömu ráðleggingar eiga við hérlendis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka