„Málið tilheyrir fortíðinni“

Frá aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars …
Frá aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars árið 2023. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birg­ir Hall­dórs­son og Jó­hann­es Páll Durr neituðu að tjá sig er þeir mættu fyr­ir dóm­ara í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í dag til að bera vitni í mál­inu gegn Pétri Jökli Jónas­syni.

„Málið til­heyr­ir fortíðinni,“ sagði Jó­hann­es. 

Auk Birg­is og Jó­hann­es­ar, báru Páll Jóns­son og Daði Björns­son vitni fyr­ir dómi í dag en þeir hafa verið dæmd­ir í fimm til níu ára fang­elsi í Lands­rétti fyr­ir að hafa reynt að smygla tæp­lega 100 kg af kókaíni til lands­ins frá Bras­il­íu.

Héraðsdóm­ur vísaði mál­inu frá í byrj­un júní þar sem ekki þótti nægi­lega skýrt í ákæru hver aðkoma Pét­urs hefði verið í mál­inu. Í lok sama mánaðar felldi Lands­rétt­ur ákvörðun­ina úr gildi og bar því héraðsdómi að taka málið til meðferðar.

Lítið kom út úr vitna­leiðsl­un­um yfir fjór­menn­ing­un­um í dag að öðru leyti en að menn­irn­ir sögðust annaðhvort ekki þekkja Pét­ur eða hann ekki tengj­ast mál­inu.

Pétur Jökull Jónasson er 45 ára gamall.
Pét­ur Jök­ull Jónas­son er 45 ára gam­all. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Málið búið fyr­ir Birgi

Páll bar vitni í gegn­um fjar­fund­ar­búnað frá Kvía­bryggju og sagðist ein­göngu hafa verið í sam­skipt­um við Birgi og Jó­hann­es. Hann sagðist ekki kann­ast við Pét­ur.

Birg­ir mætti fyr­ir dóm og tjáði dómþingi strax að hann ætlaði hvorki að svara spurn­ing­um né tjá sig um málið.

Hann sagðist ekki samþykkja að vera bund­inn vitna­skyldu og að hann hefði ekki þurft að tjá sig ef þeir hefðu all­ir verið ákærðir sam­tím­is. Ákæra var ekki gef­in út á hend­ur Pétri fyrr en í maí á þessu ári.

Birg­ir sagðist aldrei hafa átt í sam­skipt­um við Pét­ur en játaði að þekkja til hans þar sem þeir leigðu íbúðir í sama hús­næði árið 2015.

Birg­ir sagði að fyr­ir hon­um væri málið búið. Það hefði farið fyr­ir tvö dóms­stig og hann setið í fang­elsi í tvö ár.

Pét­ur ekki sá sem kom hon­um inn í málið

Eft­ir há­deg­is­hlé bar Jó­hann­es Páll vitni og var Pét­ur ekki viðstadd­ur þá.

Jó­hann­es Páll hafði sömu af­stöðu og Birg­ir. Hann byrjaði skýrslu­töku sína á að lesa upp stutta yf­ir­lýs­ingu þar sem hann sagði málið til­heyra fortíðinni.

Jó­hann­es neitaði að gefa skýrslu en tók fram að ein­stak­ling­ur­inn sem leiddi hann inn í málið væri ekki ákærði. Spurður hver það hefði verið neitaði Jó­hann­es að svara.

Dóm­ari benti Jó­hann­esi á að al­menn vitna­skylda ríkti í land­inu, en hann neitaði að tjá sig.

Spurður hvort hann hefði rætt við Birgi um dag­inn í dag svaraði Jó­hann­es neit­andi.

Jó­hann­es vísaði í fyrri skýrslu­tök­ur, bæði hjá lög­reglu og fyr­ir dómi, og sagðist hafa greint satt og rétt frá þar.

Skýrslu­taka Jó­hann­es­ar í dag tók rúm­lega þrjár mín­út­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert