„Málið tilheyrir fortíðinni“

Frá aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars …
Frá aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars árið 2023. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Halldórsson og Jóhannes Páll Durr neituðu að tjá sig er þeir mættu fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag til að bera vitni í málinu gegn Pétri Jökli Jónassyni.

„Málið tilheyrir fortíðinni,“ sagði Jóhannes. 

Auk Birgis og Jóhannesar, báru Páll Jónsson og Daði Björnsson vitni fyrir dómi í dag en þeir hafa verið dæmd­ir í fimm til níu ára fang­elsi í Lands­rétti fyr­ir að hafa reynt að smygla tæp­lega 100 kg af kókaíni til lands­ins frá Bras­il­íu.

Héraðsdómur vísaði málinu frá í byrjun júní þar sem ekki þótti nægi­lega skýrt í ákæru hver aðkoma Pét­urs hefði verið í mál­inu. Í lok sama mánaðar felldi Landsréttur ákvörðunina úr gildi og bar því héraðsdómi að taka málið til meðferðar.

Lítið kom út úr vitnaleiðslunum yfir fjórmenningunum í dag að öðru leyti en að mennirnir sögðust annaðhvort ekki þekkja Pétur eða hann ekki tengjast málinu.

Pétur Jökull Jónasson er 45 ára gamall.
Pétur Jökull Jónasson er 45 ára gamall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málið búið fyrir Birgi

Páll bar vitni í gegnum fjarfundarbúnað frá Kvíabryggju og sagðist eingöngu hafa verið í samskiptum við Birgi og Jóhannes. Hann sagðist ekki kannast við Pétur.

Birgir mætti fyrir dóm og tjáði dómþingi strax að hann ætlaði hvorki að svara spurningum né tjá sig um málið.

Hann sagðist ekki samþykkja að vera bundinn vitnaskyldu og að hann hefði ekki þurft að tjá sig ef þeir hefðu allir verið ákærðir samtímis. Ákæra var ekki gefin út á hendur Pétri fyrr en í maí á þessu ári.

Birgir sagðist aldrei hafa átt í samskiptum við Pétur en játaði að þekkja til hans þar sem þeir leigðu íbúðir í sama húsnæði árið 2015.

Birgir sagði að fyrir honum væri málið búið. Það hefði farið fyrir tvö dómsstig og hann setið í fangelsi í tvö ár.

Pétur ekki sá sem kom honum inn í málið

Eftir hádegishlé bar Jóhannes Páll vitni og var Pétur ekki viðstaddur þá.

Jóhannes Páll hafði sömu afstöðu og Birgir. Hann byrjaði skýrslutöku sína á að lesa upp stutta yfirlýsingu þar sem hann sagði málið tilheyra fortíðinni.

Jóhannes neitaði að gefa skýrslu en tók fram að einstaklingurinn sem leiddi hann inn í málið væri ekki ákærði. Spurður hver það hefði verið neitaði Jóhannes að svara.

Dómari benti Jóhannesi á að almenn vitnaskylda ríkti í landinu, en hann neitaði að tjá sig.

Spurður hvort hann hefði rætt við Birgi um daginn í dag svaraði Jóhannes neitandi.

Jóhannes vísaði í fyrri skýrslutökur, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, og sagðist hafa greint satt og rétt frá þar.

Skýrslutaka Jóhannesar í dag tók rúmlega þrjár mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka