Á meðal þeirra fjölmörgu sem ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka til styrktar endurhæfingarstöðinni Ljósinu eru Stefán Örn Þórisson og fjórir félagar hans.
Hópurinn kallar sig Sexy Beasts og hafa félagarnir nú þegar safnað áheitum fyrir yfir hálfa milljón króna. Allir kljást þeir við krabbamein og sækja endurhæfingu í Ljósinu á Langholtsvegi.
Stefán segir í viðtali við blaðamann mbl.is að til viðbótar við krabbameinið sem hann fékk hafi hann fengið heilablóðfall vegna lyfjanna og blóðtappa sem síðan leiddi til taugalömunar.
„Það sem er sorglegast í þessu öllu saman, þegar menn eru búnir að fara í gegnum svona áfall, þá er ekkert sem tekur við," segir Stefán og bætir við að ef ekki væri fyrir Ljósið þá væri hann ekki í þeirri stöðu sem hann er í dag.
„Ljósið er algjört bjarg fyrir mig.“
Það sem Stefáni finnst svo fallegt og gott við Ljósið er að það er eini staðurinn þar sem karlmenn sem eru að kljást við veikindi hittast og koma saman, æfa og hreyfa sig og fara í gegnum öll þau námskeið sem í boði eru hjá Ljósinu.
„Yfirleitt eru karlmenn bara einir heima og eiga bara að redda þessu.“
Hjá Ljósinu hafi aftur á móti myndast hópar af karlmönnum og á föstudögum í hádeginu sé til dæmis „strákamatur“ þar sem karlmenn hittast og spjalla saman um heima og geima.
Stefán segir þetta mjög sérstakt ekki síst fyrir mann eins og hann sem hafi aldrei farið í neitt svona áður, fyrr en hann datt svo bara inn.
Þá bendir hann á að svona áfall, að fá krabbamein, hafi ofsalega mikil áhrif á fjölskyldulífið og að geta komið til Ljóssins í það félagsrými sem þar er og raunar félagsheimili, sé algjört frelsi fyrir þá sem þangað sækja.
Þar geti fólk sem er að ganga í gegnum það sama spjallað um það sem það á sameiginlegt, eins og lyfjamál, hvernig lyfin eru að fara í fólk, hvaða meðferð er að virka og svo framvegis.
„Þetta er hvergi til í heiminum, held ég, að karlmenn komi saman einhvers staðar í veikindum sínum. Og sjálfviljugir.“
Hann segir að allir félagar hans í hópnum séu sammála því að það sem Ljósið hafi gefið þeim fyrir utan líkamlega endurhæfingu sé ómetanleg andleg aðstoð. Þarna hafi þeir aðgang að sálfræðingum, félagsráðgjöfum, sjúkraþjálfara, og fleiri sérfræðingum sem þeir hafi fullt aðgengi að.
„Við skulum ekki gleyma því að þetta er okkur öllum að kostnaðarlausu.“
Það eina sem kosti eitthvað er nudd og andlitsmeðferð og svo maturinn, segir Stefán.
„Og Reykjavíkurmaraþonið, þeir fjármunir sem safnast í því, fara í að gera fólki kleift að njóta þjónustunnar án endurgjalds.“
Hann segir að ríkið taki þátt í þessu starfi aðeins upp að ákveðnu marki en það reki enga svona stofnun eins og Ljósið.
„Þar mega þeir svolítið hysja upp um sig buxurnar. Og ég vil hvetja heilbrigðisráðherra til að heita á okkur hlaupastrákana. Hann getur farið inn á grúbbuna og heitið á okkur.“
Stefán segir það algjöra synd að opinberi geirinn skuli ekki koma sterkari að þessari starfsemi því þetta sé þannig lagað eini staðurinn sem tekur á móti fólki eins og honum, sem kom út af Grensás eftir taugalömunina og heilablóðfallið.
Þá hafi hann verið útskrifaður af Grensás ekki vegna þess að hann hafi verið búinn að ná sér, heldur vegna plássleysis.
Taugalömunin sem Stefán er að kljást við eftir heilablóðfallið gerir það að verkum að fótur hans hættir að virka stundum en þrátt fyrir það segir hann að þeir félagar láti veikindin ekki stoppa sig fyrir þetta hlaup:
„Við förum þetta fyrir Ljósið.“
Að sögn Stefáns er enginn félaganna laus við krabbameinið ennþá svo þeir eru allir sem einn að vinna sig út úr veikindunum þó þeir séu misjafnlega staddir í því ferli eins og er.
Hann hrósar Ernu Magnúsdóttur framkvæmdastýru Ljóssins og segir hana algjöran brautryðjanda á þessu sviði.
Það sé ótrúlegt þegar fólk fari í svona leiðangur eins og hún gerði, og sé komin þangað sem hún er búin að gera með Ljósið.
Hún stofnaði Ljósið sem sjálfseignarstofnun fyrir 19 árum, eða í lok árs 2005.
„Það má ekki gleyma því að það er veruleg aukning á krabbameini í heiminum, bæði hjá ungu fólki og miðaldra körlum. Þess vegna er einmitt meiri þörf á þessari þjónustu heldur en nokkurn tíma áður.“
Spurður hvað hann telji að Ljósið vanti helst segir Stefán að það sé stærra húsnæði. Það séu áætlanir um að stækka húsnæðið en það sé ekki hægt vegna fjárskorts.
Það sé þar sem ríkið þyrfti að koma að og styrkja, svo hægt verði að stækka húsnæðið. Það þurfi meiri aðstöðu fyrir líkamlega endurhæfingu og stærra mötuneyti.
Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?
„Það er sama hvað gengur á í lífinu hjá okkur, við getum öll lagt hönd á plóg. Alveg sama hvað gengur á þá eigum við aldrei að gefast upp og við getum alltaf hjálpað fólkinu í kringum okkur.“