Lögreglumaðurinn Páll Ingi Pálsson segir samtökin Einstök börn hafa gripið hann og fjölskyldu hans þegar þau voru ekki með stórt stuðningsnet.
Samtökin eru stuðningsfélag barna með sjaldgæfa og alvarlega sjúkdóma en Bryndís Emma, dóttir Páls, er önnur aðeins tveggja stúlkna á Íslandi sem hafa fæðst með heilkennið Cri-du-Chat.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun í ár hlaupa fyrir Einstök börn í Reykjavíkurmaraþoninu og mun þá Páll vera annar tveggja sem hleypur heila maraþonið.
Þetta verður hvorki í fyrsta sinn sem Páll hleypur maraþon né í fyrsta sinn sem hann hleypur fyrir Einstök börn en í ár mun hann í fyrsta sinn hlaupa í einkennisfatnaði lögreglunnar.
Einnig munu þeir tveir sem ætla sér að hlaupa heilt maraþon klæðast tilteknum útkallsbúnaði sem vegur aukalega sjö til tíu kíló.
Aðspurður segir hann þá geta því stokkið til ef eitthvað kemur upp á en þó verði þeir ekki á vaktinni á meðan hlaupinu stendur.
Páll er hluti af samfélagslögreglunni sem sinnir venjulegum útköllum ásamt því að heimsækja skóla einu sinni í viku.
Hann segir þau ekki fara í þær heimsóknir til þess að prédika yfir börnunum heldur frekar til þess að hlusta á þau, heyra hvað þeim brennur á hjarta og nálgast þau á þeirra forsendum.
Lögreglumennirnir muni nýta sér Reykjavíkurmaraþonið til þess að vekja athygli á þeirra störfum og færa sig nær almenningi. Þá muni þeir hlaupa á rólegum hraða og spjalla við aðra þátttakendur á meðan.
Páll segir marga samstarfsmenn sína vera spennta fyrir þessu þar sem það sé alltaf gaman að geta styrkt góðan málstað.
Lögreglumaðurinn segist finna fyrir miklu þakklæti þegar hann hugsar um fjölda þeirra sem hafa heitið á hann. „Það er gaman að sjá hvað fólk er tilbúið að ljá góðum málstað lið,“ segir Páll í samtali við blaðamann mbl.is.
Spurður hvernig Einstök börn hafi reynst fjölskyldu hans segir Páll samtökin hafa verið fulltrúar þeirra gagnvart stjórnvöldum og styrkt þau tvisvar til að fara á ráðstefnur í Bandaríkjunum með Bryndísi Emmu.
Einnig segir hann frá hátíðunum sem þau oft halda þar sem fjölskyldur geta hist, spjallað saman og borið saman bækur.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur hingað til tekist að safna rúmlega 350.000 krónum fyrir málstaðinn.
Hægt er að heita á Pál hér.