Ríkislögreglustjóri keypti glock-skammbyssur fyrir 29.490.300 króna vegna fundar leiðtogaráðs Evrópuráðsins. Skammbyssurnar virðast keyptar af Veiðihúsinu Sakka.
Þetta kemur fram í sölureikningum sem mbl.is hefur verið veittur aðgangur að eftir úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Eins og sjá má í myndum sem fylgja fréttinni þá er búið að afmá nánast allar upplýsingar um skotvopnakaupin.
Um er að ræða sölureikninga frá Sako Ltd, Heckler & Koch GmbH, Capsicum A/S og frá Veiðihúsinu Sakka ehf.
Ríkislögreglustjóra er ekki gert að upplýsa um fjölda keyptra skotvopna og skotfæra fyrir lögregluna, sem námu 185 milljónum króna í heild sinni. Eru helstu uppgefnu ástæðurnar fyrir því bæði öryggi ríkisins og varnarmál.
Skotvopnin sem voru keypt voru helst glock-skammbyssur og hálfsjálfvirkar MP5-byssur, en einnig voru tvær aðrar tegundir af skotvopnum keypt fyrir sérsveit ríkislögreglustjóra. Ekki fengust upplýsingar um hver þau skotvopn voru.
„Að mati nefndarinnar verður þannig að telja að upplýsingar um fjölda skotvopna og skotfæra, sundurliðað eftir gerðum vopnanna, sem og upplýsingar um tæknilega eiginleika fyrrgreindra einskotsbyssa kunni að nýtast þeim sem hafa í hyggju að fremja árásir eða tilræði og að opinberun þessara upplýsinga myndi því raska almannahagsmunum,“ segir í úrskurði nefndarinnar.
Sjáðu sölureikningana: