Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur og starfsmaður Þjóðarbókhlöðunnar, er stödd í vinnunni þegar blaðamaður nær af henni tali. Hún ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu 24. ágúst og hlaupa 10 km. Með þátttökunni styrkir Kamilla Ljósið, starfsemi ætlaða einstaklingum sem greinst hafa með krabbamein og fjölskyldum þeirra.
Aðspurð segist Kamilla styrkja Ljósið vegna þess að móðir hennar er með fjórða stigs krabbamein. Í gegnum tíðina hefur Ljósið verið góður stuðningur við móður Kamillu og, í seinni tíð, við vini hennar sem greinst hafi með sjúkdóminn. Kamilla segir að Ljósið bjóði til dæmis upp á frábær námskeið fyrir krabbameinsgreinda og að þar sé einnig veitt ráðgjöf til aðstandenda sem fjölskyldan hefur nýtt sér. Það sem safnist í maraþoninu sé notað til að niðurgreiða afþreyingu fyrir krabbameinsgreinda, t.d. líkamsrækt. Kamilla bætir því við að starfsmenn Ljóssins séu frábærir: „Mér þykir ótrúlega vænt um Ljósið.“
Varðandi undirbúning fyrir hlaupið segist Kamilla alls ekki hafa neinar ráðleggingar til annarra hlaupara, aðrar en þær að gera bara það sem lætur hverjum og einum líða vel. „Ég held það sé bara nóg að vera í góðu skapi. Ekki taka þetta alvarlega,“ segir hún með áherslu á síðasta orðið. Kamilla kætir blaðamann með sögunni af vini sínum sem eitt sinn tók þátt, náði ekki settu tímamarkmiði og varð svo reiður að hann henti skónum sínum. „Svo þurfti hann að komast heim til sín,“ segir hún og ætlar að reyna að vera ekki eins reið og téður vinur.
Annars segist hún hafa klúðrað öllum undirbúningi þetta árið. „Eina sem ég hef hlaupið síðustu tvö ár er að reyna að ná happy hour einhvers staðar.“ Á samtalinu er nokkuð ljóst að andlega hliðin er með besta móti.
„Ég las mér til um þetta og það stendur að maður eigi að sofa vel, borða mikið pasta, sem ég elska og svo bara reyna að vera í góðu skapi og hafa trú á að þetta klárist.“
Ítarlegra viðtal við Kamillu má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.