„Hún getur ekki svipt mig starfinu“

Helgi Magnús Gunnarsson hefur verið krafinn um að skila lyklum …
Helgi Magnús Gunnarsson hefur verið krafinn um að skila lyklum og fartölvu. Hann segir ríkissaksóknara í valdþurrð. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ráðherra er með þetta á sínu borði, hún hefur veitingarvaldið og hún hefur lausnarvaldið, hún er ekki búin að taka ákvörðun,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í samtali við mbl.is en Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari krefur hann nú um að skila lyklum og fartölvu embættisins en Sigríður hefur óskað eftir því að Helgi verði leystur frá störfum vegna margumræddra ummæla hans á samfélagsmiðlum.

„Þetta er bara valdþurrð, hún getur ekki svipt mig starfinu á sama tíma og ráðherra liggur yfir málinu,“ segir Helgi og er spurður hvers vegna ráðherra hafi ekki þegar tekið ráðin úr höndum ríkissaksóknara. „Ég veit það ekki, ég er náttúrulega búinn að vera að svara henni í fjölmiðlum,“ svarar Helgi og veltir umbeðinn fyrir sér andrúmsloftinu á vinnustaðnum í framtíðinni haldi hann áfram.

„Ég held að það sé bara Sigríðar að finna út úr því, mér finnst þetta tilefnislaust. Hún fór í þessa vegferð og hún þarf að svara því hvernig hún lýkur þeirri vegferð. Það getur vel verið að henni líki ekki að ég svari fyrir mig en hvað á ég að gera?“ spyr Helgi.

Á fimmta þúsund skrifað undir

4.530 manns hafa nú lagt nafn sitt við undirskriftalista honum til stuðnings í deilu þeirra ríkissaksóknara og kveðst Helgi hafa fundið fyrir miklum meðbyr, hundruð manns hafi sent honum tölvupóst og fólk gefi sig á tal við hann í verslunum og annars staðar á almannafæri.

„Ég hefði aldrei trúað því að svo margt almennilegt og hjartahlýtt fólk væri til, fólk sem þekkir mig ekki neitt gefur sig á tal við mig og þakkar mér fyrir að hafa komið því í orð sem það var að hugsa. Ef þetta er þögli meirihlutinn þá hef ég alla vega rekist á hluta af honum,“ segir vararíkissaksóknari.

„Hún [Sigríður] byrjaði þetta, hún getur ekki lokið sinni vegferð með einhverju einelti, einhverju sem ekki stenst lög. Nú bíð ég bara eftir að ráðherra taki afstöðu,“ segir Helgi.

Talið þið Sigríður saman í dag?

„Hún hringdi ekkert í mig áður en hún sendi mér bréf um að ég þyrfti ekki að vinna vinnuna mína og hún ætlaðist til þess að ráðherra segði mér upp. Ég hef ekki talað við hana síðan,“ svarar vararíkissaksóknari og er spurður hvort hann fýsi að sinna starfi sínu áfram þegar öldurnar lægir.

„Það verður bara að koma í ljós,“ svarar Helgi, „ef hún treystir sér ekki til þess hefur hún líka möguleika á að komast undan því,“ segir hann og kveðst ekki ætla sér að skila lyklum og tölvu til embættisins. „Ráðherra hlýtur að vera hugsi yfir því hvernig henni [Sigríði] dettur í hug að grípa svona fram fyrir hendur ráðherra. Það hlýtur að vera spurningin. Hvað ætlar ráðherra að gera? Ég er jafngildur Sigríði í skipunartíma, ég er með æviskipun, ég er ekki einhver starfsmaður á plani þarna,“ heldur hann áfram.

Ekki til þess fallið að auka virðingu fólks

Aðspurður segir hann mál þeirra Sigríðar geta rýrt álit almennings á embættinu. „Fólk verður að hugsa sitt ef þessi ferð hennar reynist fýluferð, við erum að tala um stjórnarskrárvarin réttindi á borð við tjáningarfrelsi, við erum að tala um starfsmannalögin, ég tel hana ekki hafa haft heimild til að veita mér áminningu. [Sigríður] er búin að sýna að hún beri ekki mikla virðingu fyrir lögbundnum réttindum auk þess sem hún túlkar starfsmannalögin frjálslega. Er það til þess fallið að auka virðingu fólks fyrir henni sem ríkissaksóknara og embættinu? Það er ekki mitt að dæma það en þetta sem ég sagði, og tengdist þessum árásum í minn garð, þetta er komið langt út úr kortinu miðað við það,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka