Sáttmálinn fullfjármagnaður næstu fimm árin

Frá kynningarfundi um uppfærðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í Salnum í Kópavogi.
Frá kynningarfundi um uppfærðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í Salnum í Kópavogi. mbl.is/Eyþór Árnason

Ríkið mun leggja fram hátt í sjö milljarða á ári í beinum framlög til framkvæmda í samgöngusáttmálanum næstu árin. Auk þess mun ríkið fjármagna rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu um ókomna tíð. 

Áætlað er að ríkið muni leggja fram 2,8 milljarða króna úr samgönguáætlun á ári í beinu framlagi til samgöngusáttmálans. Í fjármálaáætlun verður gert ráð fyrir fjórum auka milljörðum á ári til sáttmálans frá og með næsta ári. Ríkið mun því leggja til frá og með næsta ári um 6,8 milljarða króna í sáttmálann ársins 2029.

„Við erum með verkefnið fullfjármagnað næstu fimm árin. Á næstu fimm árum mun hins vegar verða tekin ákvörðun með hvaða hætti restin af fjármögnuninni verður. Verður hún með umferðar- og flýtigjöldum, verður hún með frekari fjármögnun í anda Keldna- og Keldnaholtslandsins eða verður hún með frekari framlögum? Það er óútfært,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is. 

Gildistími sáttmálans er til ársins 2040.

Ríkissjóður fjármagnar reksturinn að hluta

Athygli vekur að á næsta ári verður sett á lagg­irn­ar sam­eig­in­legt rekstr­ar­fé­lag fyr­ir rekst­ur al­menn­ings­sam­ganga á höfuðborg­ar­svæðinu, en ríkið mun fjár­magna rekst­ur þess um þriðjung meðan sveit­ar­fé­lög­in sex munu greiða tvo þriðju hluta rekst­urs­ins.

Sigurður Ingi segir að ekki liggi fyrir hver kostnaður ríkisins af þessu verður en gert verður ráð fyrir honum í fjármálaáætlun sem Alþingi tekur fyrir í haust.

Ríkið fjármagnar 87,5% af sáttmálanum

Ríkið mun fjár­magna 87,5% af sátt­mál­an­um en sveit­ar­fé­lög 12,5%. Munu sveit­ar­fé­lög fjár­magna verk­efni sátt­mál­ans með bein­um fram­lög­um. Ríkið mun fjár­magna sinn hluta með bein­um fram­lög­um, ábata af sölu af Keldna­landi og tekj­um af um­ferð eða með ann­arri fjár­mögn­un.

Samgöngusáttmálinn nær til ársins 2040 og munu bein framlög ríkisins í gegnum samgönguáætlun vera alls tæplega 61,3 milljarðar. Þar að auki mun „önnur fjármögnun ríkisins“ nema alls 20 milljörðum.

Þá er áætlað að ábatinn af Keldnalandinu verði 50 milljarðar og mun sá ábati renna til sáttmálans. Flýti- og umferðargjöld byrja að tikka inn tekjum árið 2030 og er áætlað að það muni skila 143 milljörðum frá árinu 2030 til ársins 2040.

Sigurður Ingi segir að strax í vetur verði komin betri sýn á það hvernig flýti- og umferðargjöldin verða.

Fyrsti fasi borgarlínunnar kláraður 2027

Ein stofnframkvæmd var tekin úr uppfærðum samgöngusáttmála. Það var Bæjarháls-Norðlingaholt, sem er hluti af Suðurlandsveginum, og var sú framkvæmd færð yfir á samgönguáætlun.

Sigurður nefnir að líklega verði farið í útboð á Fossvogsbrú í haust og hann gerir ráð fyrir því að fyrsti fasi borgarlínunnar verði kláraður árið 2027.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert