Viktoría Benný Breiðfjörð Kjartansdóttir
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, verður víða um miðborgina á morgun og mun meðal annars ræsa hálfa og heila maraþonið í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2024, ásamt Fríðu Bjarnadóttir.
Fríða var fyrst íslenskra kvenna til að hlaupa heilt maraþon á Íslandi og í fyrsta Reykjavíkurmaraþoninu sem haldið var 1984, en henni var meinuð þátttaka í maraþoninu árinu á undan.
Knútur Óskarsson mun síðan ræsa 10 km hlaupið, en hann er einn upphafsmanna Reykjavíkurmaraþonsins og var lengi vel formaður þess.
Einar ætlar ekki að bjóða í vöfflukaffi á morgun eins og forveri hans í starfi, Dagur B. Eggertsson, gerði iðulega á Menningarnótt. Er það vegna þess að Einar er búsettur í Breiðholti en ekki í miðborginni.
Einar ætlar þó að halda vöffluhefðinni á lofti og hyggst mæta í heimsókn til íbúa í miðborginni og baka vöfflur með þeim.
„Ég ætla að kíkja í vöfflukaffi og kannski taka í vöfflujárnið,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
Grindvíkingar eru heiðursgestir Menningarnætur í ár og munu bjóða upp á fjölbreytta dagskrá.
„Ég hvet alla til þess að fara niður í Ráðhús Reykjavíkur og sjá hvað Grindvíkingarnir eru að bjóða upp á og sýna þeim samstöðu,“ segir Einar.
Einar mun einnig vígja Hörputorgið þar sem verður hægt að sjá lúðrasveitabardaga sem að sögn Einars er einn af líflegri viðburðum Menningarnætur.