Myllur hafa meðbyr

Vindmyllurnar á Hafinu ofan við Búrfell. Til vinstri á myndinni …
Vindmyllurnar á Hafinu ofan við Búrfell. Til vinstri á myndinni sést Þjórsá, en handan hennar er komið í Rangárþing ytra. Innan landamæra þar og ofar í landinu á Vaðöldu stendur til að reisa um 30 myllur. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þegar umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir vindorkuver kemur til afgreiðslu geri ég ekki ráð fyrir öðru en jákvæðum undirtektum hér. Þetta verkefni virðist hafa meðbyr; að minnsta kosti eru óánægjuraddir ekki háværar,“ segir Eggert Valur Guðmundsson oddviti Rangárþings ytra.

Sem kunnugt er gaf Orkustofnun á dögunum út leyfi fyrir virkjun vindorku í Búrfellslundi, á svonefndri Vaðöldu, sem er nærri Sultartangastíflu. Þar er ætlun Landsvirkjunar að reisa 28-30 vindmyllur á 17 ferkílómetra svæði. Uppsett afl þeirra verður um 120 MW. Sú orka er lítið eitt minni en uppsett afl Sultartangavirkjunar, sem er þarna skammt frá og nýtir fall Tungnaár.

Nærsamfélagið njóti arðs af nýtingu

Skipulagsmál vegna vindorkuversins eru í höfn og jarðvegsrannsóknir hafa verið gerðar.

Í Rangárþingi ytra hefur Landsvirkjun verið með starfsemi í áratugi á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og starfsemin skipt samfélagið miklu máli. Skapað mörgum atvinnu, sérstaklega á framkvæmdatímum, að sögn oddvitans. Slíkt ásamt öðru eigi vafalaust sinn þátt í því að afstaða íbúa til vindorkuvers við Sultartanga er frekar jákvæð. Það hafi komið skýrt fram í viðhorfskönnun sem sveitarfélagið lét gera fyrr á þessu ári.

„Þótt við munum að öllu óbreyttu taka jákvætt í umsókn um framkvæmdaleyfi vegna Búrfellslundar höfum við samt ákveðna fyrirvara. Tryggja verður að nærsamfélagið hér um slóðir njóti í einhverjum mæli þess arðs sem nýting vindorkunnar þarna mun skapa. Staðan er þannig að þegar hafa verið gerðir sölusamningar vegna þeirrar orku sem þarna verður framleidd og því miklir hagsmunir í húfi,“ segir Eggert Valur.

Nánar í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka