Stefnir í skort á Ozempic

Ozempic sykursýkislyfið sem Novo Nordisk framleiðir.
Ozempic sykursýkislyfið sem Novo Nordisk framleiðir. AFP

Danski lyfjaframleiðandinn Novo Nordisk telur stefna í skort á skort á sykursýkislyfinu Ozempic á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Aukin almenn eftirspurn ásamt takmörkunum á afkastagetu hefur leitt til skorts. 

Novo Nordisk sendi tilkynningu til Lyfjastofnunar Evrópu og Lyfjastofnunar og er hún birt á vef Lyfjastofnunar. 

Þar segir að birgðaskortur tengist hvorki gæðum lyfsins né öryggisvandamálum heldur stafi hann helst af takmörkunum á afkastagetu á sumum framleiðslustöðum Novo Nordisk. 

Hefur lyfið verið uppselt á einhverjum stöðum. 

„Birgðastaða minni styrkleika af Ozempic, 0,25 mg og 0.5 mg, hefur versnað og gert er ráð fyrir endurteknum skorti á öllum styrkleikum til síðasta ársfjórðungs 2024,“ segir í tilkynningunni. 

Læknar takmarki fjölda ávísana til nýrra sjúklinga

„Því er ráðlagt að takmarka áfram ávísun meðferðar með Ozempic hjá nýjum sjúklingum þar til birgðastaðan lagast en gert er ráð fyrir að það verði í september 2024,“ segir þar enn fremur.

Til að greiða fyrir auknu framboði á Ozempic ákvað Novo Nordisk að draga tímabundið úr framboði á Victoza á síðasta ársfjórðungi 2023. Þrátt fyrir að framboð Victoza hafi lagast í öllum löndum ESB/EES síðan á fyrsta ársfjórðungi 2024 er enn ósamfelldur birgðaskortur í sumum löndum. Til að tryggja áframhaldandi meðferð hjá sjúklingum sem þegar fá meðferð er ráðlagt að ávísa ekki Victoza fyrir nýja sjúklinga.

Ozempic og Victoza eru ætluð til meðferðar hjá fullorðnum með ófullnægjandi stjórn á sykursýki af tegund 2, sem viðbót við mataræði og hreyfingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka