Vissu fyrst ekki af íshellaferðunum

„Það er svo ekki fyrr en nýlega, bara í fyrra, …
„Það er svo ekki fyrr en nýlega, bara í fyrra, að okkur berst til eyrna að það sé verið að fara í íshellaferðir á sumrin,“ segir þjóðgarðsvörður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður á austurhluta suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, segir að lítið brot af þeim ferðaþjónustuaðilum sem eru með samning við þjóðgarðinn hafi boðið upp á íshellaferðir að sumri til.

Þeir samningshafar samþykki að vera með hæft starfsfólk sem geti metið aðstæður hverju sinni.

Banaslys varð eftir að ísveggur gaf sig í íshelli á sunnudag og hefur myndast mikil umræða og gagnrýni á íshellaferðir að sumri til.

Hefur Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagt að banaslysið hafi verið tifandi tímasprengja.

Skrifaði Magnús skýrslu ásamt Finni Pálssyni og Jóni Gauta Jónssyni fyrir sjö árum um áhættumat vegna ferða í íshella fyrir Vatnajökulsþjóðgarð þar sem bent var á að íshellaskoðun að sumri til þætti mjög hættuleg.

Umhverfisviðmið og öryggisáætlanir

„Það er ekki fyrr en árið 2020 sem við gerum fyrst samninga við rekstraraðila íshellaferða og jöklagangna og þeir samningshafar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði hjá okkur,“ segir Steinunn í samtali við Morgunblaðið.

Bendir hún á að rekstraraðilar þurfi að vera með leyfi Ferðamálastofu og gilda ábyrgðartryggingu og sýna fram á ákveðin umhverfisviðmið og öryggisáætlanir.

Segir hún að þegar samningarnir voru fyrst gerðir hafi íshellaferðir fyrst og fremst verið yfir vetrartímann, nánar tiltekið frá miðjum október fram í miðjan apríl.

Barst þetta til eyrna í fyrra

„Síðan ákváðum við að gera samninga til eins árs sem ná þá yfir sumarið líka en þá vorum við fyrst og fremst að gera samninga um jöklagöngurnar yfir sumartímann af því að jöklagöngur eru alveg ferðir sem hægt er að fara í allt árið,“ segir Steinunn.

Bætir hún við:

„Það er svo ekki fyrr en nýlega, bara í fyrra, að okkur berst til eyrna að það sé verið að fara í íshellaferðir á sumrin. Til að því sé haldið til haga þá er það lítið brot af þeim ferðaþjónustuaðilum sem eru með samninga sem eru að bjóða upp á þessar ferðir. En samningshafar samþykkja það að þeir séu með hæft starfsfólk sem metur aðstæður hverju sinni.“

Mikil samkeppni

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur myndast mikil samkeppni um íshella í Breiðamerkurjökli. Hefur til að mynda komið til átaka í sumar á milli tveggja leiðsögumanna, hvors frá sínu fyrirtækinu, við íshelli í þjóðgarðinum. Sigrún staðfestir það.

„Við fengum það tiltekna mál inn á borð til okkar fyrir rúmlega mánuði og áttum mjög góð samtöl við alla hlutaðeigandi og ég tel að því máli hafi bara verið lokið með mjög góðum hætti á þeim tíma,“ segir Steinunn um málið.

Vatnajökulsþjóðgarður sendi frá sér tilkynningu á mánudag þar sem kom fram að ekki verði farið í íshellaferðir á svæði þjóðgarðsins tímabundið. Segir í tilkynningunni einnig að það sé til skoðunar að herða kröfur til rekstraraðila sem starfa í þjóðgarðinum og verður sú vinna unnin í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.

Starfshópur skipaður

Á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun var tekin ákvörðun um að starfshópur yrði skipaður úr fjórum ráðuneytum sem muni fara yfir öryggismál í jöklaferðum og skoða hvað megi bæta og hvað hafi farið úrskeiðis í slysinu á Breiðamerkurjökli um nýliðna helgi. Starfshópurinn heyrir undir forsætis-, dómsmála-, ferðamála- og umhverfisráðuneyti.

Þjóðgarðsvörðurinn segist fagna þeirri ákvörðun og vonast jafnframt til að þjóðgarðsverðir Vatnajökulsþjóðgarðs fái að koma með sína reynslu og sýn inn í þá vinnu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir um hörmulegt slys að ræða.

Greint hefur verið frá að ferðaþjónustufyrirtækið sem skipulagði ferðina í íshellinn á sunnudag veitti lögreglu rangar upplýsingar um fjölda ferðamanna í hópnum. Í sólarhring töldu viðbragðsaðilar því að tveir væru fastir undir ísfarginu sem féll sem leiddi til umfangsmikillar leitar sem stóð yfir þar til síðdegis í fyrradag. Seinna kom í ljós að enginn var undir ísfarginu.

Lilja segir það grafalvarlegt að talningin hafi ekki staðist en á þriðja hundrað komu að leitinni við krefjandi aðstæður.

„Þetta kallar á að við förum betur yfir þessi mál. Nú er það svo að þjóðgarðurinn er undir umhverfisráðuneytinu sem veitir leyfi fyrir þessum ferðum á jöklinum og það þarf að skoða til að mynda hvers vegna ekki var farið betur yfir mat skýrslu okkar helstu jarðvísindamanna á þeirri hættu að fara í jöklaferðir á sumri til,“ sagði ráðherrann í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert