Guðlaugur: Kyrrstaðan í orkumálum rofin

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, leggur áherslu á að framkvæmdir við Blöndulínu og vindorkuverið í Blöndudal, auk annarra framkvæmda í nýtingarflokki rammaáætlunar hefjist sem fyrst. 

Þetta segir Guðlaugur í samtali við mbl.is, sem ræddi við blaðamann að loknum fundi ríkistjórnarinnar með fulltrúum sveitarfélaga innan vébanda Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Guðlaugur kveðst ánægður með fundinn og segir að málefni sem snúi að grænni orku hafi þar verið ofarlega á baugi.

„Þetta var mjög góður fundur, heimamenn voru mjög vel undirbúnir, með einstaklega góðar kynningar og þeir voru sömuleiðis búnir að undirbúa okkur með hvað yrði hæst á baugi og það sem snýr að mínum málaflokki, sérstaklega grænu orkumálunum, það var mjög áberandi, flutningskerfin og orkuöflunin.“

Búið að rjúfa kyrrstöðuna

Guðlaugur segir að eftir ákveðna lægð í framkvæmdum þegar kemur að grænni orku sé nú búið að „rjúfa kyrrstöðuna“.

Í því samhengi vísar hann meðal annars til nýrrar rammaáætlunar, varmadælufrumvarpsins og aflaukningafrumvarpsins sem hafa verðið samþykkt og þess að nú standi yfir næststærsta framkvæmdarár Landsvirkjunar.

Spurður hvort áform varðandi virkjanakosti við Blöndu, Blönduveita og vindorkuverið í Blöndulundi, sem búið að setja í nýtingarflokk rammaáætlunar séu óbreytt segir Guðlaugur svo vera.

„Það er mjög mikilvægt að nýta það sem er í nýtingarflokki. Bæði Blönduveita og Blöndulundur eru í nýtingarflokki og því fyrr sem menn fara af stað þar því betra,“ segir Guðlaugur.

Öll eggin séu ekki í sömu körfunni

Spurður hvort hann telji ráðlegt að leggjast í frekar virkjanaframkvæmdir í landshlutanum, meðal annars í jökulánum sem renna í Skagafjörð segist Guðlaugur ekki tala fyrir ákveðnum virkjanakostum en leggur áherslu á að græn orka sé framleidd og orkuöryggi tryggt.

„Ég legg á það áherslu að við fáum græna orku og við þurfum að líta til ákveðinna þátta. Ég hef ekki verið að tala fyrir einstaka virkjanakostum því ég held að það einfaldi ekki málið en það sem ég hef talað fyrir og legg áherslu á er að við verðum að fá meiri græna orku og við verðum að huga að orkuöryggi,“ segir Guðlaugur og bætir við:

„Við höfum verið að vekja athygli á náttúruvá frá upphafi þessa kjörtímabils og núna horfum við á með berum augum að hér verða eldgos um ókomna tíð og jarðskjálftar og annað og það skiptir miklu máli að öll eggin séu í sömu körfunni. Við þurfum ekki bara framboð af grænni orku, við þurfum líka á því að halda að það sé öruggt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka