Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Pétur Jökul Jónasson í átta ára fangelsi fyrir aðild hans að stóra kókaínmálinu.
Þetta staðfestir Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari í málinu, við mbl.is.
„Þetta er í samræmi við þær kröfur sem var lagt upp með,“ segir hún um niðurstöðuna. „Hann var sakfelldur samkvæmt ákæru.“
Aðalmeðferð í málinu lauk um miðjan þennan mánuð. Saksóknari fór fram á að Pétur Jökull yrði dæmdur í að minnsta kosti sex og hálfs árs fangelsi.
Hann var sakaður um tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með því að hafa, ásamt fjórum öðrum, reynt að smygla tæplega 100 kg af kókaíni til landsins frá Brasilíu. Efnin voru falin í trjádrumbum og voru gerð upptæk í Rotterdam í Hollandi og gerviefnum komið fyrir í staðinn.
Í nóvember voru Birgir Halldórsson, Páll Jónsson, Jóhannes Páll Durr og Daði Björnsson dæmdir í fimm til níu ára fangelsi í Landsrétti.