Gerir lítið úr félaginu með málflutningnum

Andri Steinn Hilmarsson bæjarfulltrúi í Kópavogi.
Andri Steinn Hilmarsson bæjarfulltrúi í Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, telur gagnrýni Framkvæmdastýru Kvenréttindafélags Íslands á hið svokallaða Kópavogsmódel í leikskólamálum óvandaða og bera með sér að ekki hafi verið litið til þeirrar stöðu sem var uppi í málaflokknum áður. Hann segir breytingar í Reykjavík einnig hafa haft mikil áhrif í nágrannasveitarfélögum.

Fyrr í vikunni var Kópavogsmódelið til umræðu í Kastljósþætti í Ríkissjónvarpinu. Þar var rætt við framkvæmdastýru Kvenréttindafélags Íslands, Auði Önnu Magnúsdóttir, sem vildi meina að fyrirkomulagið væri „ein skýrasta birtingarmynd bakslagsins í jafnréttismálum síðastliðin ár“.

Bitnar verst á mæðrum

Fyrirkomulagið felur í sér að foreldrum býðst að vista börn sín á leikskólum 30 klukkustundir á viku án þess að greiða fyrir það en að sjöundi og áttundi klukkutíminn hækki í verði.

Í gangrýni sinni í Kastljósi talaði Auður um að þetta fyrirkomulag bitni verst á mæðrum barna því þær eru töluvert líklegri til að taka á sig styttri vistunartíma.

Andri, sem birti Facebook-færslu um málið í gær, dregur ekki í efa að takmörkun á dagvistunartíma barna bitni verst á mæðrum en hann telur að sú óvissa sem áður var upp í málaflokknum í hafi haft enn verri áhrif á þær.

Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Kvennréttindafélags Íslands.
Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Kvennréttindafélags Íslands. Ljósmynd/Landvernd

Starfsmennirnir leituðu annað

„Eins og ég rek í þessari færslu var ástandið óboðlegt börnunum, foreldrunum og starfsfólki leikskólana. Þetta var afleiðing víxlverkunnar manneklu og álags, það er að segja álagið leiddi til þess að starfsmennirnir okkar voru farnir að leita í önnur störf og það skapaði ennþá meira álag og það gekk mjög illa að ráða í lausar stöður.

Víða voru leikskólarnir ekki fullmannaðir og það leiddi þá til þess að þeir leikskólar sem voru verst staddir þurftu ítrekað að grípa til lokana og annarsstaðar, þar sem ekki var gripið til lokana, voru foreldrar hvattir til að sækja börnin sín fyrr til að draga úr álagi á leikskólunum,“ útskýrir Andri og segir að þetta hafi haft mikið rask í för með sér fyrir fjölskyldur. Í heildina voru leikskólar í bænum lokaðir í 212 starfsdaga á einu ári.

Til þess að grípa í taumana í málaflokknum lögðust bæjaryfirvöld yfir fyrirkomulagið sem var fyrir hendi og var ákveðið að fara fyrrnefnda leið þar sem 30 klukkustunda vistun á viku væri gjaldfrjáls en klukkustundirnar umfram það hækkuðu í verði.

Andri segir að fyrir barn sem hafi verið vistað í 8 klukkustundir á dag fyrir og eftir breytingarnar hafi sú hækkun verið rúmlega 10 þúsund krónur á mánuði.

„Við höfum samanburðinn“

„Þetta hefur orðið til þess að við höfum ekki þurft að loka leikskólunum okkar einu sinni síðan. [...] Við höfum samanburðinn og við sjáum hver áhrifin eru, við sjáum árangurinn af þessu,“ segir Andri en hann telur að ekki sé tekið tillit til þessa í gagnrýni Auðar.

„Mér finnst vera mjög grunnt á gagnrýninni, mér finnst eins og hún hafi ekki gefið sér tíma í að kynna sér áhrifin sem þetta hefur haft því hún dregur þá ályktun að þetta sé bakslag í jafnréttisbaráttunni af því að stytting dvalartíma barna komi helst niður á mæðrunum, það eru hennar rök og réttilega í mörgum tilfellum.

En á hverjum bitna lokanadagarnir eða þegar börnin þurfa að vera mánuðum lengur heima því þau fá ekki úthlutað leikskólaplássum? Það er það sem mér finnst vanta algjörleg inn í þessa mynd sem hún er að mála og þess vegna finnst mér þetta vera illa rökstutt og mér finnst hún vera gera lítið úr sínum samtökum með svona málflutningi,“ segir Andri

Óvandaður málflutningur

Spurður hvort hann telji þá að óvissan sem áður ríkti í leikskólamálum í Kópavogi hafi bitnað verr á mæðrum en fyrirkomulagið sem nú er segi Andri:

„Já, ég myndi svara því játandi en ég myndi fyrst og fremst svara því þannig að með hennar rökum, þar sem hún fullyrðir á hverjum þetta bitnar ætti hún að heimfæra það líka yfir á þann óstöðugleika sem ríkti í okkar leikskólum fyrir breytingar,“ segir Andri.

Hann bætir við að enginn sé tilneyddur til að stytta leikskólavist barna sinna heldur sé um að ræða valkost sem margir nýti sér.

„Það að láta þessi gífuryrði út úr sér þegar við erum búin að sjá þennan árangur af okkar aðgerðum sem mörg sveitfélög hafa horft til og tekið upp eftir okkur í kjölfarið finnst mér vera mjög óvandaður málflutningur,“ segir Andri.

Raunverulegt bakslag

Andri segir að velta þurfi fyrir sér tveimur atriðum sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins þurfi að taka inn í myndina. Fyrst hvaða áhrif óstöðugleiki, þar sem sækja þarf börn vegna lokana, hefur á jafnrétti kynjanna. Í öðru lagi segir hann mikil áhrif af fækkun leikskólaplássa í Reykjavík á nágrannasveitarfélög.

„Leikskóla og dagvistunarrýmum hjá Reykjavíkurborg hefur fækkað um hátt í þúsund á síðustu 10 árum með tilheyrandi áhrifum á nágrannasveitafélög. Þar er raunverulegt bakslag, allavega ef við erum að horfa til atvinnuþátttöku kvenna.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka