Yfir 200 manns tóku þátt í varnaræfingu á varnarsvæðinu í Reykjanesbæ í dag þar sem viðbragð við hópslysi sökum eldgoss var æft. Æfingin var hluti af Norður-Víkingi, 1.200 manna heræfingu sem hefur staðið yfir síðustu daga en lýkur á morgun.
15 manns léku sjúklinga, margir hverjir frá Landsbjörg, sem höfðu hlotið áverka vegna eldgoss og var komið upp aðstöðu á varnarsvæðinu til þess að taka á móti þeim. Auk heilbrigðisstarfsmanna frá Bandaríkjaher voru sex frá viðbragðssveit Landspítalans og sex frá Heilbrigðsstofnun Suðurnesja.
„Þetta eru búnir að vera stórir áverkar. Það var einn sem fékk grjóthnullung í andlitið á sér og var með alvarlegan höfuðáverka í kjölfarið á því. Annar sem fékk reykmökk – svona gufustrók úr eldgosi – framan í sig og fékk því alvarlega eitrun, segir Þórdís Edda Hjartardóttir, bráðahjúkrunarfræðingur hjá Landspítalanum, í samtali við mbl.is um „áverkana“.
Þórdís er hluti af viðbragðssveit LSH sem veitir stuðning og ráðgjöf við viðbragðsaðila í héraði og sinnir þeim verkum sem óskað er eftir ef hópslys verða. Í teyminu er einn bráðalæknir og tveir bráðahjúkrunarfræðingar.
„Við styðjum við heilbrigðisstofnanir út á landi ef það verða stór slys,“ segir Þórdís.
Aðstaða var til staðar fyrir þá sem þurftu að fara í skurðaðgerð og voru skurðlæknar á staðnum frá Bandaríkjaher. Var þá einn leikari sem þurfti að leika sjúkling sem lést af áverkum sínum.
„Því miður er sannleikurinn sá að í svona alvarlegum slysum þá eru mjög miklar líkur á því að einhver sé með það alvarlega áverka að hann lifi ekki af,“ segir hún.
Græða íslenskir heilbrigðisstarfsmenn eitthvað á svona æfingum?
„Já, klárlega. Að sjá búnaðinn sem þau eru með og fá hugmyndir um hvernig við getum bætt okkar búnað. Sérstaklega viðbragðssveitin fer bara á alla staði á landinu og þarf að geta verið með góðan búnað til að sinna því sem við þurfum að sinna á staðnum.
Svo er líka einn af læknunum okkar þyrlulæknir þannig hún er líka að skoða hvað þau geta bætt á þyrlunni,“ segir Þórdís.
Þórdís segir að upp úr árið 2020 hafi verið farið yfir hópslysaáætlanir á ný vegna eldgosanna á Reykjanesskaga og séð hvernig viðbragð væri ef tjón yrði á fólki vegna eldgosa. Það sé því gott að taka þátt í æfingu sem er einmitt miðuð að því að hlúa að fólki sem á að hafa lent í slysi vegna eldgoss.
Hún segir klárt mál að ef að stórt hópslys yrði á landinu þá þyrfti á hjálp hermanna á varnarsvæðinu að halda. Til að mynda á skemmtiferðaskipi eða í Bláa lóninu.
„Það voru 1.300 manns í Bláa lóninu þegar byrjaði að gjósa. Ef þetta hefði orðið alvarlegt þar, við hefðum ekki getað höndlað 1.300 manns í einu og þá hefði verið mjög mikilvægt að fá aðstoð frá hernum til að setja upp sinn eigin spítala,“ segir hún.
Þórdís segir að æfingin hafi gengið vel og að áhugavert hafi verið að fylgjast með því hvernig herinn athafnar sig.
Fólk frá Landspítalanum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, almannavörnum og Landhelgisgæslunni kom meðal annars að æfingunni ásamt Bandaríkjaher.
Varnaræfingin Norður-Víkingur hófst í síðustu viku og lýkur á morgun. Æfingin er haldin á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og fer að jafnaði fram á tveggja ára fresti.