„Við tölum um réttlætisriddara þar sem þau eru að taka lögin í eigin hendur.“
Þetta segir Unnar Þór Bjarnason lögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu en hann var gestur Dagmála í gær ásamt Kára Sigurðssyni verkefnastjóra Flotans – Flakkandi félagsmiðstöðvar, þar sem aukið ofbeldi og vopnaburður ungmenna var til umræðu.
Unnar gegnir nú fullu starfi sem „samfélagslögga“ eftir að verkefnið hlaut aukið fjármagn í kjölfar neikvæðrar þróunar ofbeldis á meðal ungmenna.
Samfélagslöggur heimsækja skóla og ræða við börn á öllum skólastigum og svara spurningum þeirra um ýmis málefni er varða lög og reglu – þar á meðal ofbeldi.
Segir Unnar sum ungmenni einfaldlega halda að þau megi taka lögin í eigin hendur og hefna sín geri einhver eitthvað á þeirra hlut eða vina þeirra. Þau geri sér oftar en ekki grein fyrir því að vopnaburður sé óheimill.
Kveðst Unnar iðulega fá spurningar um sjálfsvörn og því sé brýn þörf á að tala um orsök og afleiðingar við börn og ungmenni að sögn Unnars.
Börn spyrji jafnvel spurninga á borð við: „Af hverju má ég ekki vera með hníf ef ég er bara að verja sjálfan mig?“
„Það fer mjög mikill tími oft í að ræða um afleiðingar. Hvað gerist ef þú mætir með hníf þarna. Hvað gerist ef þú kýlir einhvern sem ýtir í þig.“
Kári tekur undir með Unnari en bendir sömuleiðis á að hluti ungmenna þekki reglurnar en telji sig vera stikkfrí vegna aldurs.
„Það er líka alveg hópur sem er svolítið að fókusera á að segja: já en ég er náttúrulega ósakhæfur.“
Að hans mati felist lausnin meðal annars í því að fleira fólk sé til reiðu sem unglingar geti leitað til líkt og samfélagslöggan og starfsfólk félagsmiðstöðva. Ungmenni eigi til að lenda óvart í aðstæðum sem þau sáu ekki fyrir í leit að félagsskap og mikilvægt að þau viti hvert þau geti leitað til að fá aðstoð.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: