Framboð Katrínar kostaði 57 milljónir

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kostnaður við framboð Katrínar Jakobsdóttur til forseta Íslands nam rúmlega 57 milljónum króna.

Frá þessu greinir Katrín í tilkynningu en Ríkisendurskoðun opinberar í dag uppgjör þeirra forsetaframbjóðenda sem skiluðu því inn til stofnunarinnar.

Katrín óskaði í ágúst eftir styrkjum til að greiða þann kostnað sem eftir stóð vegna framboðsins. Ráða má af tilkynningu fyrrverandi forsætisráðherrans að tekist hafi að loka gatinu.

Framlög til kosningabaráttunnar námu þannig 57.625.414 krónum. Útgjöldin námu 57.348.689 krónum.

26 milljónir í auglýsingar

Alls varði Katrín rúm­lega 26 millj­ón­um króna í aug­lýs­ing­ar og ann­an kynn­ing­ar­kostnað. Tæp­ar 12 millj­ón­ir fóru í kosn­inga­skrif­stof­una og hátt í 9 millj­ón­ir í fundi og ferðakostnað. Ann­ar kostnaður nam um 10 millj­ón­um króna.

Ein­stak­ling­ar lögðu bar­átt­unni til 41 millj­ón króna en um 8,5 millj­ón­ir komu frá fyr­ir­tækj­um. Sjálf setti Katrín þrjár millj­ón­ir króna í fram­boðið. Aðrar tekj­ur námu um 4,5 millj­ón­um króna.

„Ótrúlega mikils virði“

Segir í tilkynningu Katrínar að afgangurinn af rekstrinum verði látinn renna til góðgerðamála á næstunni.

„Ég er ótrúlega þakklát þeim sem studdu við framboðið – með vinnu, fjárframlögum og ótæmandi stuðningi og jákvæðum straumum. Það er ótrúlega mikils virði að finna slíkan stuðning og skynja þá miklu breidd sem er í stuðningsmannahópnum,“ skrifar Katrín.

„Þannig að nú þegar þessu er öllu lokið með formlegum hætti er mér þakklæti efst í huga og stolt yfir góðri og málefnalegri baráttu. Enn og aftur óska ég nýjum forseta velgengni í mikilvægum störfum og við ykkur segi ég TAKK!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka