Hnífstunguárásin á Menningarnótt, húsnæðisvandinn, náttúruhamfarirnar á Reykjanesskaga og læsi barna var á meðal þess sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, talaði um í sinni fyrstu setningarræðu á Alþingi.
„Nú við þingsetningu ber þann skugga á að þjóðin er harmi slegin eftir hnífstungur síðastliðna Menningarnótt sem hafði óbærilegar afleiðingar. Við fyllumst vanmætti við slíkar aðstæður því hvað er þýðingarmeira í samfélagi okkar manna en fólkið okkar, unga fólkið okkar í blóma lífsins,“ sagði Halla.
Hún sagði skóla hefja störf í skugga þessa harmleiks. Okkur bæri skylda til að hlúa að börnunum okkar, tryggja öryggi þeirra og koma þeim til manns. Íslendingar yrðu að stöðva þessa slæmu þróun og koma í veg fyrir að ofbeldi sem þetta endurtæki sig.
Halla talaði um að vítahringur hefði skapast vegna húsnæðisskorts, verðbólgu og vaxta. Hún benti á að hér á landi dveldu löglega yfir 80 þúsund erlendir ríkisborgarar, flestir frá evrópska efnahagssvæðinu. Ísland gæti ekki án þeirra verið. „Þau þurfa þak yfir höfuðið eins og við hin,“ sagði hún. Eftirspurn á húsnæðismarkaði hefði eðlilega aukist vegna þess.
Forsetinn sagði hamfarirnar á Reykjanesskaga engu líkar og að vernda þyrfti inniviði en ekki síður að halda utan um samfélag í sárum. „Það þarf að búa þannig um hnútana að fólk fái sjálft að koma að ákvörðunum um endurreisn þess.“
Halla hélt áfram og sagði sorglega atburði undanfarinna vikna láta engan ósnortinn. Kafa þyrfti að uppsprettu þeirrar vanlíðunar sem brjótist út í ofbeldi því engum sem líði vel vopnist til að meiða aðra.
Hún vakti athygli á mikilvægri þess að beita sannþróuðum aðferðum við lestrarkennslu og sagði börn þurfa athygli og finna að á þau væri hlustað. Rannsóknir sýndu líka að skjá- og símafrí skipti sköpum.
„Í sítengdum heimi hefur orðið alvarlegt tengslarof,“ sagði forsetinn og hvatti fólk til að aðstoða börnin við að ræða tilfinningar sínar og finna tjáningu sinni farveg. Almennt þyrfti fólk líka að hlusta eftir sjónarmiðum annarra og lyfta sér upp yfir dægurþras.
Loks talaði Halla um að Paralympics-leikarnir í París væru kennslustund í mennsku. Þar hefði verið klappað þangað til allir kláruðu, hver og einn einasti keppandi.
Benti hún jafnframt alþingismönnum á mikilvægi þess að geta gefið eftir og náð sameiginlegri lendingu í deilumálum.