Aðalmeðferð í máli gegn fimmtugri móður, sem sökuð er um að hafa orðið sex ára syni sínum að bana og gert tilraun til þess að deyða eldri son sinn sömuleiðis hófst í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Þinghaldið er lokað og fjölmiðlum því meinaður aðgangur. Þá var notast við bakdyrainngang dómssalarins til að koma í veg fyrir að hægt væri að fylgjast með því hverjir væru mættir við upphaf aðalmeðferðarinnar.
Áður hefur komið fram að konan hafi játað sök í málinu en að hún telji sig hafa verið í þannig ástandi að verkið sé refsilaust.
Matsmenn í málinu eru þá ekki sammála því og komust í lok júlí að þeirri niðurstöðu að konan væri sakhæf.
Málið kom upp í lok janúar á þessu ári en konan sjálf hafði samband við lögreglu. Þegar lögregla kom á svæðið var sex ára sonur hennar látinn en eldri sonur konunnar farinn í skólann.
Konan er af erlendu bergi brotin og bjó á Nýbýlavegi ásamt sonum sínum tveimur þegar atvikið varð. Fjölskyldan nýtur alþjóðlegrar verndar og hefur verið búsett á Íslandi í um fjögur ár.
Drengurinn sem lést var nemandi í fyrsta bekk við Álfhólsskóla og var áfallateymi skólans virkjað í kjölfar andlátsins.
Konan er annars vegar ákærð fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi og hins vegar vegar fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi.
Í ákærunni kemur fram að konan hafi svipt son sinn lífi með að setja kodda yfir andlit hans og með báðum höndum þrýst koddanum yfir vit hans, þrýst á háls hans og efri hluta brjóstkassa hans og ekki linað þau tök fyrr en drengurinn var látinn. Lést hann af völdum köfnunar að því er fram kemur í ákærunni.
Þá er konan sögð hafa farið inn í svefnherbergi eldri drengsins þar sem hann lá sofandi á maganum, tekið fyrir vit hans með annarri hendi og í hnakka hans með hinni. Þrýsti hún andliti hans niður í rúmið þannig að hann gat ekki andað. Vaknaði drengurinn við þessa atlögu og gat losað sig úr taki móðurinnar.
Fyrir hönd eldri drengsins er farið fram á að móðirin greiði honum tíu milljónir í bætur, en auk þess fer faðir drengjanna fram á átta milljónir í bætur.