Kvartað yfir skorti á Fillippo Berio-ólífuolíum

Fillippo Berio-ólífuolíurnar eru vinsælar á Íslandi.
Fillippo Berio-ólífuolíurnar eru vinsælar á Íslandi. Ljósmynd/Innnes

Talsvert hefur borið á því á netinu og víðar að fólk kvarti undan því að fá ekki Fillippo Berio-ólífuolíurnar vinsælu í verslunum landsins en Filippo Berio hefur verið mest selda ólífuolía á Íslandi um árabil.

Þannig virðist meðal annars ekki hægt að fá olíuna í Krónunni og Bónus.

Páll Hilmarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Innnes sem flytur inn Fillippo Berio, segir að ástæða takmarkaðs framboðs í íslenskum verslunum sé fyrst og fremst sú að kaupmenn hafi ekki treyst sér til að bjóða olíuna á því verði sem hún er á í dag.

Verulega verðhækkanir á hráefni

Hann segir að verulegar verðhækkanir á hráefni, sem stafa af alvarlegum uppskerubresti vegna þurrka á helstu ólífuræktarsvæðum, hafi leitt til þess að verð á allri ólífuolíu hafi hækkað gríðarlega.

Framleiðanda olíunnar hafi tekist að útvega áfram ólifuolíu sem stenst hans gæðastaðla og framleiða ólífuolíu fyrir sína markaði, en Ísland er þar á meðal að sögn Páls.

Páll segir að sumir smásalar hafi talið olíuna orðna of dýra til að halda henni í verslunum, þar sem íslenskir neytendur fylgist vel með verðþróun og viðkvæmni sé fyrir verðhækkunum á nauðsynjavörum.

Hann segir að í boði séu á markaðnum töluvert dýrari ólífuolíur en Filippo Berio.

Er ekki ófáanleg

Verðhækkanir sem eru beintengdar hækkun á hráefniskostnaði eru því aðalástæðan fyrir því að Filippo Berio ólífuolía hefur verið illfáanleg í íslenskum verslunum.

Hún er þó ekki ófáanleg því fjölmargir kaupmenn vilja gefa sínum viðskiptavinum val en hægt er að versla Filippo Berio í Nettó, Fjarðarkaupum, Hlíðarkaupum, Prís, Extra og Melabúðinni svo eitthvað sé nefnt, enda nægar birgðir til hjá innflytjenda, segir Páll.

Hann segist vonast til þess að ástandið lagist með nýrri uppskeru á komandi misserum og að neytendur sýni skilning á þessum sérstöku ástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert